Lengsta ofurhetjumynd allra tíma

Justice League útgáfa Zacks Snyder verður ekki gefin út í fjórum hlutum eins og áður var gefið upp, heldur sem ein risamynd – cirka 240 mínútur að lengd. Um er þá að ræða lengstu ofurhetjumynd sem hingað til hefur verið gerð og verður hún bönnuð börnum yngri en 17 ára vestanhafs.

Snyder-klippið svonefnda lendir á streymisveitunni HBO Max í mars næstkomandi. Má jafnvel búast við að stórmyndin fái dreifingu í IMAX-bíóum í útvöldum löndum.

Justice League var gefin út um vetur 2017 en frá upphafi útgáfuársins var orðið ljóst að ekki væri allt með felldu með þessa þriðju DC stórmynd frá Zack Snyder, eða réttara sagt að framleiðslan væri hreint í heljarinnar rugli.
Á meðan á klippiferli á Justice League stóð varð leikstjórinn að stíga frá verkefninu, en um það leiti skall harmleikur á þegar dóttir hans svipti sig lífi. Segja sumar heimildir að kvikmyndaverið Warner Bros. hafi einfaldlega rekið Snyder á meðan á sorgarferlinu stóð og hafi komið bein tilskipun framleiðenda að Justice League þyrfti að vera léttari, meira í líkingu við Marvel-myndirnar og alls ekki lengri en 120 mínútur.

Þá var Joss Whedon ráðinn til að eiga við handritið, leikstýra auka- og endurtökum (þá með skeggjuðum Cavill) og hafa yfirsýn yfir lokasamsetningu. Útkoman er sú sem áhorfendur sáu og þekkja í dag, en strax í kjölfar frumsýningarinnar fóru margir að krefjast þess að Warner Bros. gæfi út upprunalegu útgáfuna af myndinni. Eftir vaxandi baráttu myllumerkisins #ReleasetheSnyderCut, varð upprunalega sýn Snyders loksins nær því að verða að veruleika.


Fjögurra klukkustunda Snyder-klippið er talið vera allt öðruvísi í tóni, umfangi og sögu. Á meðal þráða sem klipptir voru úr heildarverkinu voru ítarlegri baksögur Cyborg (Ray Fisher), The Flash (Ezra Miller) og fleiri Íslandsvina. Jafnframt voru þekktu DC persónurnar Green Lantern, Martian Manhunter og Darkseid fjarlægðar úr sögunni. Willem Dafoe, Jesse Eisenberg og fleiri aukaleikarar lentu einnig á klippigólfinu og samdi Junkie XL tónlistina í upprunalegu útgáfunni, áður en Danny Elfman tók síðar við. Auk þess er Superman ekki aðeins lukkulega laus við gúmmívarirnar heldur í svörtum búningi ofan á það.

Með viðbættum tökum bættist einnig Jared Leto við og bregður hann fyrir í hlutverki Jókersins sem áður hafði verið kynntur í kvikmyndinni Suicide Squad.