Leikstjóri Warrior fær sín næstu verkefni

Leikstjóri og einn handritshöfundur Warrior, Gavin O’Connor, var nýlega fenginn til að leikstýra handriti sem Warner Bros. eignaðist á dögunum og hann hjálpaði við að skrifa. Titill handritsins er The Samurai og fjallar um leigumorðingja, að nafni Townes Joyce, sem sleppur úr fangelsi í Texas og þarf því að flýja þvert um hnöttinn undan yfirvöldunum. Á ferð sinni kynnist hann konu og barni hennar sem koma með honum í förina sem spannar yfir Kosta Ríku, Kólumbíu, París og Bandaríkin.

Þetta verður næsta kvikmynd O’Connors eftir Warrior, en á sama tíma hefur hann í plönunum að færa 1959 skáldsögu Walter Tevis, The Husler, upp á leiksviðið; árið 1961 var sagan aðlöguð að hvíta tjaldinu undir sama nafni og var enginn annar en Paul Newman í aðalhlutverki. Handritið verður skrifað af honum og öðrum Warrior handritshöfundi, Anthony Tambackis.

The Hustler fjallar um ungan svindlara í pool, kallaður „Fast Eddie“, sem skorar á pool meistarann Minnesota Fats og afleiðingar þess.