Leikstjóri Hulk með mynd um morðóða flökkuhunda??

Leikstjóri nýjustu Marvel myndarinnar, The Incredible Hulk, hann Louis Leterrier er sagður vera með mynd í bígerð með ansi skrýtinn söguþráð. Í gær tilkynnti hann að næsta mynd sem hann myndi koma nálægt væri myndin Strays. Hann myndi þó örugglega ekki endilega leikstýra henni heldur framleiða og skrifa handritið (svipað fyrirkomulag sem hann og Luc Besson voru með við gerð The Transporter og Transporter 2.

Lítið hefur verið gefið upp með söguþráðinn, en sagan er víst sú að hópur bissnesskalla vaknar í yfirgefinni og geislavirkri borg í Rússlandi og verður að komast í gegnum allskonar hindranir til að verða öruggir. Hins vegar fengu Aintitcoolnews tilkynningu um að söguþráðurinn væri allt annar.

Gáfaðir flökkuhundar sem myrða heimilislaust fólk og geta húkkað sér far með lestum og öðrum faratækjum verða aðalsögupersónur myndarinnar, þeir eru svo gáfaðir að þeir vita af því að lögreglan fylgist með ferðum þeirra.

Þetta er annaðhvort það svalasta sem ég hef heyrt eða það asnalegasta, ég veit ekki alveg hvort. Þá er pælingin sú hvort þessir megahundar séu „stray“ hundarnir eins og titillinn á við um, eða hvort að þessir hundar séu ein af hindrununum sem bissnesskallarnir verða að komast yfir til að verða öruggir. Eða þá að þetta gæti verið algert bull. Einhvernveginn grunar mig að þessi hugmynd sé uppruninn héðan, en þetta myndband sýnir alvöru gáfaða flökkuhunda í Rússlandi, þeir eru þó algerlega meinlausir.

Myndin á ekki að koma út fyrr en árið 2012, þannig að við fáum víst að pæla nóg í þessu þangað til.