Tökum á íslensku kvikmyndinni Ófeigur gengur aftur er nýlokið en nú er verið að klippa myndina. Ágúst Guðmundsson er bæði handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar, en Ágúst hefur áður gert myndir á borð við Með allt á hreinu og Mávahlátur.
Ilmur Kristjánsdóttir og Gísli Örn Garðarsson í hlutverkum sínum.
Í samtali við Kvikmyndir.is sagði Ágúst að tökurnar á myndinni hafi gengið vel. „Það var mikil lukka meðal leikarana, þeir fundu sig svo vel í þessum húmor,“ sagði Ágúst.
Hann sagðist ekki hafa áður gert mynd eins og þessa og bætir við að til gamans megi geta þess að hér sé líklega í fyrsta sinn sýnt í íslenskri kvikmynd hvernig látinn maður drekkur í gegnum lifandi mann!
Afskiptasöm afturganga
Myndin fjallar um Ófeig (Laddi), sem er nýlátinn faðir Önnu Sólar (Ilmur Kristjánsdóttir). Hann gengur aftur og fer að hlutast til um líf hennar og kærasta hennar, Inga Brjáns (Gísli Örn Garðarsson). Unga parið ætlar að selja hús hins látna, en Ófeigur er því mótfallinn og vill ekki að þau flytji. Afskiptasemi afturgöngunnar eru slík að Ingi Brjánn bregður á það ráð að reyna að kveða drauginn niður með aðferðum sem hann finnur í gamalli galdrabók. Ókunnugleiki unga mannsins á þessu sviði verður þó einungis til þess að hann vekur upp annan draug, smáklikkaða fyrrum ástkonu Ófeigs, og við það magnast reimleikar í húsinu um allan helming.
Þegar Ófeigur ber sig til við að beita valdi til að varpa konu með miðilsgáfu út úr húsinu, er ljóst að nú duga engin vettlingatök.
Áætlað er að frumsýna myndina um næstu páska.