Lawrence er ofurnjósnari og rauður spörfugl

Bandaríska leikkonan Jennifer Lawrence og leikstjórinn Francis Lawrence rugla saman reitum enn á ný í myndinni Red  Sparrow, eða Rauði spörfuglinn í lauslegri íslenskri þýðingu, en þau unnu saman að Hungurleikjamyndunum þremur.  Fyrsta stiklan úr Red Sparrow er nú komin út.

Í myndinni leikur Lawrence hlutverk Dominika Egorova, ballettdansmeyjar, sem verður fyrir meiðslum af hendi meðdansara síns. Til að láta hæfileika hennar ekki fara forgörðum, þá ræður rússneska leyniþjónustan hana til sín sem njósnara.

Í stiklunni sjáum við Dominika í ýmsum gerfum, en einnig leikkonuna Charlotte Rampling sem einbeittan leiðbeinanda.  Þá virðist Joel Edgerton vera í stóru hlutverki. Aðrir helstu leikarar eru Matthias Schoenaerts, Mary-Louise Parker og Jeremy Irons.

Kvikmyndin er byggð á samnefndri skáldsögu Jason Matthews.

Opinber söguþráður er á þessa leið: Þegar Dominika verður fyrir meiðslum sem binda enda á feril hennar, þá er framtíð hennar og móður hennar í uppnámi. Hún neyðist því til að ganga í Sparrow skólann, sem er leyniþjónustustofnun sem þjálfar ungt og hæfileikaríkt fólk til að verða njósnarar, og notar huga þess og hæfileika sem vopn.

Eftir að hafa klárað harðneskjulega þjálfunina þá er Dominika orðinn hættulegasti fulltrúinn sem Sparrow verkefnið hefur nokkru sinni ungað út.  Dominika þarf nú að ná sátt við sjálfa sig, á sama tíma og hún er það stórhættulega vopn sem hún er orðin.

Myndin kemur í bíó 2. mars nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: