Melissa Gilbert, best þekkt sem Lára Ingalls úr Húsinu á sléttunni, sem voru geysivinsælir sjónvarpsþættir hér á landi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, ætlar að bjóða sig fram til setu á Bandaríkjaþingi.
Gilbert býður sig fram fyrir demókrataflokkinn sem þingmaður fyrir 8. fylki í Michigan, og mun þar etja kappi við fulltrúa repúblikana, Mike Bishop.
„Ég býð mig fram til að gera líf fjölskyldna hér auðveldara, sem finnst þær hafa lent illa í efnahagsþrengingum síðustu ára,“ sagði Gilbert í yfirlýsingu á vefsíðu sinni, www.gilbertformichigan.com.
„Ég trúi því að það að endurreisa efnahaginn sé samvinnuverkefni, og við þurfum að fá nýtt fólk að borðinu til að klára verkefnið.“
Gilbert, sem er 51 árs að aldri, hefur ekki áður verið í pólitík, en hún var formaður Screen Actors Guild í tvö tímabil, frá 2000 til 2005.
Gilbert er bæði leikkona og leikstjóri. Hún er frá Kaliforníu en flutti til Howell í Michigan árið 2013 eftir að hafa gifst Timothy Busfield, sem er frá East Lansing. Melissa á tvö börn.
Í frétt USA Today segir að Gilbert eigi erfitt verkefni fyrir höndum, þar sem fylkið sé grjóthart vígi Repúblikana.
Þá hefur Gilbert átt í útistöðum við skattinn, og skuldar honum 360 þúsund Bandaríkjadali, sem andstæðingar munu líklega gera sér mat úr í kosningabaráttunni.