Langaði að láta skjóta úr sér augað – viðtal við Nicolas Cage


Nicolas Cage gerir fátt betur en að leika menn með djöfulinn á hælum sér. Persóna hans í Drive Angry, John Milton, á einmitt við þann vanda að stríða, en hann hefur snúið úr helvíti til að bjarga barnabarni sínu frá því að vera fórnað í satanískri trúarathöfn. Við ræddum við Cage um að drekka bjór úr hauskúpum og fleira.

-Þetta er í fyrsta sinn sem þú ert í mynd sem er tekin upp í 3D. Hvernig er það öðruvísi en að taka upp mynd venjulega?-

Nicolas Cage: „Ég var mjög spenntur að sjá hvað við gætum gert við formið. Ég var eiginlega eins og krakki í dótabúð. Mig langaði bara að sjá hvort að ég gæti rekið tunguna í andlitið á einhverjum í fjórðu röð. En þegar leið á aðra vikuna þá varð mér ljóst að þetta er bundið sömu lögmálum og að gera hefðbundna mynd með 35 mm. vél. Og það er Patrick Lussier leikstjóra að þakka. Hann er frumkvöðull hvað varðar 3D. Hann komst að því hvað getur farið úrskeiðis í fyrstu 3D-myndinni sem hann gerði, My Bloody Valentine. Hann vissi hvar myndavélin þyrfti að vera staðsett svo að leikararnir útjöskuðu ekki áhrifunum, en það er mjög auðvelt að gera það.“

-Þú ert mikill bílakall. Geturu sagt okkur hvernig þér leið að fá að keyra þessa kagga sem sjást í myndinni?-

NC: „Það leynist engum að ég og bifreiðar höfum átt í ástríkum samböndum í gegnum tíðina. Ég er ágætis ökumaður. Ég myndi ekki segja að ég væri toppökumaður en ég er góður. En þegar ég keyri bíl fyrir bíómynd þá, líkt og þegar ég leik, fell ég í trans. Ég hef í raun enga hæfileika, en ég veit hvað þeir vilja þannig að einhvernveginn leysist þetta allt. Það eina sem getur verið erfitt fyrir mig er ef einhver annar er í bílnum með mér. Til dæmis Amber Heard á húddinu. Þá verð ég stressaður að eitthvað komi fyrir og ég sé ábyrgur fyrir því og þá keyri ég ekki eins vel.“

-Segðu okkur frá hauskúpunni sem Billy Burke drekkur úr í myndinni.-

NC: „Ég elska það! Billy Burke er fáránlega fyndinn í þessari mynd. Ég elska hvernig hann leikur King. En já, ég veit ekki hvort þið trúið því en ég var að lesa ljóðabók Walt Whitman, Leaves of Grass. Og þar einhversstaðar kemur fyrir lína um að drekka mjöð úr hauskúpu.
Ég hugsaði með mér, það er frábært. Það væri gaman að láta einhvern drekka mjöð úr hauskúpu í þessari mynd! Að hluta til af því að ég vildi að Milton hefði keltneskt og frumstætt yfirbragð. Svo langaði mig líka að sjá hvort að ég gæti framkvæmt þetta, búið til réttu hauskúpuna.
Ég pældi mikið í þessu, tók meira að segja upp nokkrar tökur með kúpunni, eins og í bjórauglýsingu, til að finna út hvernig hægt væri að fá bjórinn til að gusast út um augað. Það varð að vera heillandi, þannig að áhorfendur hugsuðu „vá, ég veit að það er klikkað en ég væri alveg til í að drekka bjór úr hauskúpunni á einhverjum núna.“

-Þegar þú last handritið fyrst, hvað heillaði þig helst við persónu John Milton?-

NC: „Sko, það sem heillaði mig mest, svona í byrjun, var að ég fengi að leika einhvern sem augað er skotið úr. Í myndinni Season of the Witch vildi ég að einhver skyti úr mér augað með ör, en framleiðendurnir vildu það ekki. Þannig að þegar Lussier bauð mér það: „Þú verður skotinn í augað í myndinni“, sagði ég strax „Já. Ég er með.“ Mig langaði bara til þess, svo einfalt var það.“

-Það er fullkomið jafnvægi milli hasars, húmors og hryllings í myndinni og þar er persóna þín fremst meðal jafningja. Voruð þið upptekin að því að taka þessu ekki of alvarlega? Eða þurftuð þið að vinna að því að koma á þessu jafnvægi?-

NC: „Ég held að það sjáist strax á öllum sem tóku þátt að þeir tóku þessu ekki of alvarlega. Þetta varð fljótt absúrd, þar sem allir vissu fullvel að myndin yrði yfirdrifin og öfgafull og allir voru sammála um að taka því með gleði og húmor.
Að því sögðu þá verð ég að benda á að það er kjarni í myndinni. Og sá kjarni snýst um persónu Amber Heard og samband hennar við mína persónu, sem er ekki hefðbundið ástarsamband. Það er eitthvað enn ástríkara og hversdagslegra, næstum eins og samband við eldri bróður eða föður getur verið, þar sem þau deila einhverju fallegu, sama þótt þau séu tveir útjaskaðir og kolklikkaðir útlagar á flótta.“

Texti: Kolbrún Björt Sigfúsdóttir

(Viðtalið birtist upphaflega í Myndum mánaðarins, 208. tbl.)