Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirÍ myndinni er ljótt orðbragð

Drive Angry 2011

(Hell Driver, Drive Angry 3D)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 13. maí 2011

One hell of a ride.

104 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 47% Critics
The Movies database einkunn 44
/100

John Milton er harðnaður krimmi sem hefur brotist út úr Helvíti til að drepa Jonah King fyrir að hafa gabbað dóttur hans í sértrúarsöfnuðinn sinn til þess eins að drepa hana og manninn hennar og stela af þeim nýfæddri dóttur þeirra. Dótturinni skal svo fórnað. Milton kemst að því að fórnin skuli fara fram í Stillwater-fangelsinu í Louisiana. Á leið... Lesa meira

John Milton er harðnaður krimmi sem hefur brotist út úr Helvíti til að drepa Jonah King fyrir að hafa gabbað dóttur hans í sértrúarsöfnuðinn sinn til þess eins að drepa hana og manninn hennar og stela af þeim nýfæddri dóttur þeirra. Dótturinni skal svo fórnað. Milton kemst að því að fórnin skuli fara fram í Stillwater-fangelsinu í Louisiana. Á leið sinni þangað hittir hann fyrir Piper, unga þjónustustúlku sem neitar að sofa hjá kærastanum sínum, Frank fyrr en hann giftist henni. Milton kemur því svo fyrir að hann fái far með henni í átt að Stillwater-fangelsinu, en þegar heim til hennar er komið finna þau Frank í rúminu með annarri stúlku. Eftir hörð átök þeirra á milli stela þau Piper og Milton bílnum hans Frank og leggja saman upp í hið djöfullega ferðalag. Það sem þau vita ekki er að „The Accountant“ , sérstakur útsendari Satans leitar Miltons, en hans er saknað í Helvíti. Nú og auðvitað vill költið hans Jonah King hann dauðan líka. En barninu skal bjargað, ef Milton fær einhverju um það ráðið.... minna

Aðalleikarar

Vantar meiri reiði
Drive Angry hefur einfalt og skemmtilegt markmið í huga en það kemur furðu mikið á óvart hvað henni tekst oft illa að ná því. Hún er gerð fyrir þá sem elska hráar exploitation-myndir og ætlast ekki til þess að vera neitt annað en ýktur pakki af klikkuðu ofbeldi þar sem hasarinn og töffaraskapurinn er það eina sem áherslan er lögð á. Í rauninni var allt tilbúið á borðinu sem myndin þurfti til þess að vera ljómandi fín afþreying en maður dettur fljótlega úr gírnum þegar hún byrjar að valda vonbrigðum á þeim svæðum sem hún ætti helst ekki að gera, og það er fyrst og fremst slæmum leikstjóra að kenna. Meiri hraði, meiri grimmd, vandaðri hasaratriði, betri brellur og annar aðalleikari hefði getað snúið þessu öllu við.

Ég hefði haldið að þessi mynd væri viljandi að reyna að vera óvönduð ef ég vissi ekki að leikstjórinn, Patrick Lussier, væri svona lélegur. Hann hefur aðeins batnað frá því hann gerði My Bloody Valentine, sérstaklega hvað þrívíddartökur varða (sú leit oft ansi illa út, sérstaklega í dimmum senum). Ég las það m.a.s. að hann hafi sjálfur sagt að hann hafi lært af mistökum þeirrar myndar og maður sér strax muninn. En þó svo að Lussier viti hvað hann vill og reyni með bestu getu að skemmta blóðsjúku áhorfendum sínum þá er framkvæmdin bara slöpp, og hann virðist heldur ekki vita það hvenær leikarar sínir eru að standa sig hroðalega. Drive Angry er samt alls ekki leiðinleg mynd þótt hún hafi ekki komið beint vel út. Hún gerir sumt rétt þrátt fyrir að græða sem allra mest á einni tiltekinni frammistöðu. Það er hinn ómótstæðilegi William Fichtner sem á heiðurinn á henni.

Nicolas Cage heldur áfram að sýna kvikmyndaáhugamönnum það að fyrir hverja mynd eins og The Bad Lieutenant þarf að fylgja a.m.k. ein sem er ömurleg og önnur ekkert sérstök, og það er bara ef við erum heppin. Cage er náttúrulega einn af þessum leikurum sem getur verið ótrúlega pirrandi þegar rangur leikstjóri vinnur með honum, en það er ekkert óeðlilegt þegar um er að ræða leikstíl eins sérkennilegan og leikarinn er þekktur fyrir. Í sumum tilfellum getur Cage verið svo ákaflega hress að honum tekst að gera leiðinlegar myndir mun þolanlegri (The Sorcerer´s Apprentice t.d.) en í öðrum sér maður að hann er bara að taka þátt útaf peningnum. Drive Angry bauð klárlega upp á harðasta hlutverk hans í mörg ár (þó ég geti ekki sagt að nafnið John Milton sé gott nafn á harðhaus) en allan tímann virkar maðurinn svo áhugalaus, eins og hann sé ekki alveg að nenna þessu. Það er erfitt að halda með honum útaf þessu, og ég held að ég sé ekki einn um það að Fichtner hafi verið fimmfalt svalari og margfalt skemmtilegri til áhorfs. Sá gaur vissi alveg hverju hann var að taka þátt í.

Amber Heard gerir nákvæmlega það sem hún þarf að gera og það felur ekki mikið í sér. Hún á bara að vera heit og vera annaðhvort við hlið andhetjunnar eða í hættu svo hún geti látið bjarga sér. Beisik. Handritsvinna myndarinnar fer samt heldur betur að skíta upp á bak þegar David Morse stígur inn í söguna. Hann kemur algjörlega upp úr þurru til að leysa tímabundið vandamál og svo er hann fenginn til að skófla baksögu Cage ofan í áhorfandann. Svo bara sjáum við ekkert meira af honum fyrr en í endann, þar sem hann er enn og aftur gerður að skyndireddingu. Frekar aumingjalegt. Billy Burke gerir síðan sitt besta til að stela senunni en oftast þegar einhver reynir slíkt þá verður hann sjálfkrafa meira óþolandi. Cage ætti að kannast við það.

Mynd eins og þessi þarf samt að fara vel af stað til að maður rúlli með henni alla leið og fatti hvaða tón hún sækist eftir. Þessi gerir það ekki. Byrjunin reynir að vera töff en hún er svo hæg og klisjukennd að maður byrjar strax að hafa áhyggjur af restinni. Eina atriðið sem stóð ágætlega fyrir sínu var bílaeltingrleikur upp úr miðju en allt hitt er misjafnlega gott. Klippingin er stirð og Lussier nær oft ekki rétta flæðinu til að gera senurnar tryllt skemmtilegar. Svo er tónlistin oft illa valin. Slow motion/bullet time-æðið þreytist einnig skelfilega en þó ekki jafn mikið og ofnotkunin á 3D gimmick-inu. Lussier stenst nefnilega ekki þá freistingu að láta Cage eða einhvern annan beina byssu sinni beint að miðri myndavélinni eða láta haug af tölvugerðum hlutum skjótast í áttina að þér. Svona lagað virkar einungis þegar þú ert að horfa á ákveðnar gimmick-sýningar sem eru helst ekki bíómyndir í fullri lengd, og þetta lítur bara enn verr út þegar fólk sér svo 2D útgáfuna af myndinni. Það er heldur engin afsökun fyrir því hvað tölvubrellurnar eru vondar.

Ég fíla sko svokallað trash cinema, og myndin má vera eins kjánalega brjáluð og hún vill svo lengi sem afþreyingargildið er í lagi. Drive Angry vill aðeins of mikið vera skemmtileg vond mynd, og það endar kaldhæðnislega með því að hún verður bara vond. Hún hefur samt sína spretti þrátt fyrir það, smá húmor og nóg af subbuskap svo maður kvarti ekki. Fichtner hækkar hana sama úr fjarka í fimmu.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn