Kvikmyndir hin nýja skreið

Stockfish evrópsk kvikmyndahátíð í Reykjavík var sett í gær við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís. Fjöldi innlendra og erlendra gesta voru viðstaddir setningu hátíðarinnar sem stendur yfir til 1. mars nk.

Eins og fram  kom í samtali Morgunblaðsins við Ásu Baldursdóttur dagskrárstjóra Bíó Paradísar í gær, þá er Stockfish enska heitið yfir skreið. Hátíðin er ný af nálinni en byggir á grunni Kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem stofnað var til árið 1978, að sögn Ásu.  „Við erum að endurvekja þessa gömlu hátíð og núna undir nýju nafni, Stockfish. Þetta nafn er skemmtilegt og nýtt og fólk man eftir því. Ég var eitthvað að grínast með það um daginn að skreið var ein helsta útflutningsvara Íslendinga og við viljum að kvikmyndir verði það núna,“ segir Ása kímin í samtali við Morgunblaðið.

friðrik þór

Friðrik Þór Friðriksson formaður stjórnar Stockfish hélt ræðu.

Opnunarmynd hátíðarinnar var Flugnag­arðurinn (Flug­p­ar­ken) eft­ir Jens Östberg, en Sverr­ir Guðna­son fer með aðal­hlut­verkið í mynd­inni. Jens Östberg og Sverrir Guðnason mættu á opnunina og flutti Jens stutt er­indi fyr­ir sýninguna. Einnig fluttu Friðrik Þór Friðriksson, formaður stjórnar hátíðarinnar, Matthias Brinkmann, sendiherra ESB á Íslandi og Christina Hedberg, eiginkona sænska sendiherrans á Íslandi ávörp en Evrópustofa og sænska sendiráðið eru styrktaraðilar hátíðarinnar.

sverrir

Sverrir Guðnason ásamt foreldrum sínum 

Viðstaddir setninguna voru auk þess norski leikstjórinn Bent Hamer sem leikstýrði 1001 gramm sem er framlag Noregs til Óskarsverðlaunanna í ár og verður sýnd í Bíó Paradís í kvöld og Rachid Bouchareb, leikstjóri sem hefur þrisvar sinnum hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin. Hann er með þrjár myndir á Stockfish evrópskri kvikmyndahátíð, þær eru Days of Glory, London River og Two Men in Town.

Í dag kemur til landsins norski leikstjórinn Eskil Vogt með kvikmyndina Blind sem víða hefur hlotið verðlaun og tilnefningar sem besta kvikmyndin og einnig kemur Pavel Jech skólameistari hins þekkta FAMU skóla í Tékklandi. Hann verður í kvöld með opinn fyrirlestur í Bíó Paradís sem ber yfirskriftina „Tíu brandarar sem munu kenna þér allt sem þú þarft að vita um handritaskrif.“

 

Stikk: