Eins og mörgum unnendum DC-myndasagnaheimsins er kunnugt um hefur nú fengist staðfest að leikstjórinn Zack Snyder fái að gefa út stórepíkina Justice League, í sínu upprunalega formi á næsta ári. Hreyfingin #ReleaseTheSnyderCut skilaði aldeilis glæstum árangri og uppskar það gífurlegan fögnuð hjá aðdáendum leikstjórans að loksins verði hægt að sjá afraksturinn sem honum tókst ekki að klára.
Það er streymisveitan HBO Max sem ákvað að taka við keflinu og fjármagna það sem vantar til að klára fínslípun eftirvinnslunnar (eða um 20 milljónir Bandaríkjadala). Þó ekki sé komin formleg dagsetning verður Snyder-klippið gefið út á streymið og má búast við ofurhetjuepíkinni á næsta ári. Í ljósi gífurlegrar lengdar upprunalegu Justice League í höndum Snyders hefur ekki verið lokað á að gefa ræmuna út í formi mini-seríu.
Saga þessarar hreyfingar og ákvörðunartöku kvikmyndaversins Warner Bros. og HBO Max er lyginni líkust. Frá upphafi útgáfuársins var orðið ljóst að ekki væri allt með felldu með þessa þriðju DC stórmynd frá Zack Snyder, og að framleiðslan væri hreint í heljarinnar rugli.
Justice League átti að halda sama þræði og var kynntur í Man of Steel og Batman v Superman: Dawn of Justice, en á meðan á klippiferli Justice League stóð varð leikstjórinn að stíga frá verkefninu, en um þetta leyti skall harmleikur á þegar dóttir hans svipti sig lífi. Segja sumar heimildir að kvikmyndaverið Warner Bros. hafi einfaldlega rekið Snyder á meðan á sorgarferlinu stóð og hafi komið bein tilskipun frá framleiðanda að Justice League þyrfti að vera léttari, meira í líkingu við Marvel-myndirnar og alls ekki lengri en 120 mínútur.
Þá var Joss Whedon (Buffy, Avengers, Avengers: Age of Ultron) ráðinn til að eiga við handritið, leikstýra auka- og endurtökum (þá með skeggjuðum Cavill) og hafa yfirsýn yfir lokasamsetningu. Útkoman er sú sem áhorfendur sáu og þekkja í dag, en strax í kjölfar frumsýningarinnar fóru margir hverjir að krefjast þess að Warner Bros. gefi út upprunalegu útgáfuna af myndinni.
Svonefnda „Snyder-klippið“ er talið vera um 214 mínútur að lengd (e. þrír og hálfur tími – að lágmarki), með allt öðruvísi tóni og miklu meiri epík að sögn leikstjórans. Auk þess er Superman ekki aðeins lukkulega laus við gúmmívarirnar heldur í svörtum búningi ofan á það, ófáum aðdáendum myndasagnanna til mikillar ánægju.
Röddum fjölgar
Hreyfingin til að gera Snyder-klippið að veruleika hefur þá sett af stað kröfur fólks eða áhorfenda um að fleiri stórmyndir fái sömu meðferð. Þar er helst átt við um bíómyndir sem urðu fyrir gífurlegum afskiptum framleiðenda og gjörbreyttust í kjölfarið við neikvæðar viðtökur almennings. Leið ekki á löngu þangað til að önnur DC-kvikmynd fór að hirða sviðsljósið á samfélagsmiðlum í þessu samhengi, eins og fyrirsögn gefur til kynna – andhetjufarsinn Suicide Squad.
Vill nú svo til að leikstjóri Suicide Squad, David Ayer, hefur tjáð sig um þessar pælingar og þætti honum sjálfum vænt um að upprunalegt klipp hans verði barið augum af aðdáendum.
Þó eftirvinnsluferli Suicide Squad hafi verið gerólíkt Justice League er víða þekkt að kvikmyndin hafi farið í gegnum ýmsar stökkbreytingar í klippiherberginu. Heilir þræðir voru látnir fjúka (á meðal þeirra haugur af senum með Jared Leto) og var lokaafraksturinn fjarri því sem Ayer sá upphaflega fyrir sér.
Ayer staðfestir á Twitter-síðu sinni að myndin hafi lent í „Edward Scissorhands ferlinu“ og myndi það lækna gömul sár að sjá upprunalega klippið gefið út. Segir hann að það sé afar þreytandi að fá „rassaspörk“ fyrir útkomu kvikmyndar sem hann fékk litlu ráðið um.
„Myndin sem ég gerði hefur aldrei verið birt,“ segir hann.
Ayer er venjulega þekktur fyrir harðsoðnar hasar-, krimma- eða löggumyndir og á að baki titla eins og Street Kings, End of Watch, Sabotage og Bright. Útkoman á Suicide Squad fékk fína aðsókn um sumarið 2016 en heilt yfir afleitar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda. Voru þá sérstaklega margir sammála um að myndin væri bersýnilega illa klippt, óreiða í efnistökum og virðist sem að Jókerinn í túlkun Óskarsverðlaunahafans Jared Leto sé sá allra óvinsælasti til þessa.
Leto hefur sjálfur ekki legið á skoðunum sínum með óánægju sína á svonefndri bíóútgáfu Suicide Squad. Leikarinn lagðist grimmt í karakter og tók ekki vel í það hversu mikið efni af Jókernum hans lenti á klippigólfinu.
Þykir ekki ólíklegt að hreyfing og tilurð Snyder-klippsins á Justice League leiði til áframhaldandi áskorana af þessu tagi.