Sælir kæru lesendur. Á þessum föstudegi kem ég með viðtal við leikstjóra myndarinnar Knight of the Living Dead. Sú íslenska kvikmynd er ódýr hryllings-komedía, frá árinu 2005. Viðmælandi minn að þessu sinni er Bjarni Gautur.
Eftir að hafa lent í eldingu á meðan á blóðugum bardaga stóð, þá liggja riddari og víkingur í skóglendi á Íslandi. Þar liggja þeir, með bölvun á sér til að bíða þar til einhver gefur sál sína svo þeir geti barist á ný. Klippt yfir í árið 2005, þegar nokkrir krakkar frá Tromaville fara til Íslands til að veiða. Þeir vekja óvart riddarann og víkinginn, sem er ekki góðs viti.
Hvað tók langan tíma að gera myndina og hvað var erfiðast við framleiðsluna?
Það tók allt sumarið 2005 að taka upp myndina og síðan allan september að klippa hana, eftir það var hún tilbúin. Erfiðast við framleiðsluna var að reyna fá alla leikarana saman. Enginn var að fá borgað og flestir voru ekki mikið til í að leika til að byrja með en ég og hinir framleiðendurnir vorum fastir á því að fylgja handritinu 100% og þess vegna þurftum við stundum að taka upp senur í bútum. Eftir Knight of the Living Dead höfum við aldrei fylgt handritinu, nema þegar ég gerði myndirnar Transongeist og Salamandra Box.
Afhverju mynd í fullri lengd í staðinn fyrir stuttmynd?
Ég taldi stuttmyndir ekki vera alvöru myndir á þessum tíma og vildi því gera alvöru mynd, mynd sem gæti verið gefin út. Myndin var með dreifingu í Texas frá 2005-2006 til dæmis.
Kvikmyndagerðarmenn af hvaða gerð sem er vilja oft ekki kannast við sitt gamla efni af ýmsum ástæðum, ert þú í sömu stöðu varðandi Knight of the Living Dead?
Persónulega tel ég Knight of the Living Dead ekki vera góða mynd. Ég hinsvegar tel hana vera það besta sem ég gat gert 15 ára gamall (árið 2005). Þegar það kemur að „distanca“ sig frá gömlu efni, þá tel ég mig ekki hafa gert nógu mikið af nýju efni til þess að geta gert það enn. Allt sem ég geri í dag er með mjög svipaðan húmor og Knight of the Living Dead.
Hvernig var Lloyd Kaufman (einn af stofnendum TROMA) fenginn til að vera með ykkur í myndinni?
Árið 2004 hafði ég talað við Lloyd Kaufman og vinnufélagann hans, Michael Herz. Við töluðum um það að ég gæti aðstoðað þá við að gefa út myndirnar þeirra á Íslandi, þar sem þeir voru ekki með dreifiaðila. Það gekk því miður ekki upp, en þeir voru með upplýsingarnar mínar. Þegar það kom til að þeir ætluðu að sýna myndirnar sínar á Íslandi, þá fékk ég skemmtilegt vefbréf frá þeim um að þeim vantaði eitthvern til þess að leika „Toxic Avenger“ með honum Lloyd þegar hann kynnti myndirnar. Ég tók það hlutverk að mér með þeim skilmála að Lloyd mundi leika í kvikmyndinni minni í staðinn. Þess má geta að Lloyd Kaufman hefur séð myndina og var svo ánægður með hana að hann ákvað að gefa hana ekki út. Ég lenti síðan í því að senan með mér og Lloyd Kaufman var endurnotuð í kvikmynd sem ber nafnið ‘Action Figures’. En þá endar senan þannig að húsið sem ég og hann erum í er sprengt í loft upp.
Hversu stór partur myndarinnar er spuni?
Ekki mikill. Aðal spunann má finna í The Knight og Viking persónunum, ástæðan fyrir því er sú að leikararnir Andri Kjartan og Höddi Björnsen neituðu oft að fylgja handritinu. Það gekk svo langt að hann Höddi fékk „co-writing“ credit. Lloyd Kaufman senan var með smá spuna þó svo að öll senan var plönuð áður en við tókum hana upp.
Hversu mikið efni var klippt úr myndinni?
Rosa mikið af dóti sem bara virkaði ekki inn í myndina. Við vorum með nokkur sub-plot í gangi sem var betra að klippa út. Eina senan sem ég man almennilega eftir sem við klipptum út var sena þar sem hjóli er kastað í mig. Það var í partý senunni áður en við „blackum out“ og lendum á Íslandi. In retrospect, þá hefðum við átt að halda þeirri senu. Veit ekki afhverju hún var klippt út.
Um hvað væri framhaldsmyndin og hvað myndi hún heita?
Árið 2006 ætluðum við að gera „Don of the Dead“ sem hét upprunalega „Lawn of the Dead“. Planið var að lóðin sem Knight og Viking persónurnar úr Knight of the Living Dead lenda á er eign mafíunnar og þeir vakna aftur til lífsins og berjast á móti þeim. Planið var að fá stóran bút af leikurunum aftur saman. Sú mynd dó þegar við fórum að vinna að „Clownie & the Satanic Cult“ og tveimur myndum í fullri lengd sem hurfu í harða diska crashi (Brian McGee – Superhero Extraordinaire og The Breeding).
Hvað eiga Knight of the Living Dead og Night of the Living Dead sameiginlegt?
Ekkert nema nafnið. Ég vill þó benda á það að Knight of the Living Dead á brátt tíu ára afmæli (2015).