Þó að upplýsingar frá Kína séu af frekar skornum skammti þá er það þó að frétta af sýningum á nýjustu mynd Quentin Tarantino, Django Unchained, þar í landi, að búist er við að hún fari aftur í bíó þar innan skamms, eftir lítilsháttar viðbótar lagfæringar.
Eins og við sögðum frá á fimmtudaginn þá var henni kippt snögglega úr bíó á fimmtudaginn og ástæðan var sögð tæknilegs eðlis. Myndarinnar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu, enda um fyrstu mynd Tarantino að ræða sem tekin er til almennra sýninga í landinu.
Aðili sem fékk fregnir af málinu á föstudaginn, og bandaríska dagblaðið New York Times segir frá á vefsíðu sinni, sagði að myndin yrði klippt dálítið til í viðbót við fyrri snyrtingu, en búið var að klippa út senur og laga til, til að milda blóðsúthellingar í myndinni.
Aðilinn mátti ekki koma fram undir nafni vegna trúnaðarskilmála.
Enn er óljóst nákvæmlega hvenær eða hve víða myndin verður sýnd í Kína.
Ekki er heldur vitað nákvæmlega hvað varð þess valdandi að myndin var tekin snögglega úr sýningum, en menn telja að það sem hafi einkum farið fyrir brjóstið á opinberri kvikmyndaskoðun landsins hafi verið nektarsena þar sem Django, sem leikinn er af Jamie Foxx, er bundinn nakinn upp á hvolfi, og til stendur að gelda hann.
Einnig grunar menn að styttri sena þar sem kvenpersóna sem Kerry Washington leikur, er dregin nakin úr neðanjarðarpyntingarklefa, sé möguleg önnur ástæða.
Myndir Tarantino eru þekktar fyrir að sýna ofbeldi á grafískan hátt.
Bandarísk kvikmyndafyrirtæki eru mjög áköf í að komast inn á Kínamarkað, enda er það annar stærsti kvikmyndamarkaður í heimi á eftir Bandaríkjunum. Skilyrði sem Kínverjar setja fyrir sýningu á myndum þar í landi hefur þó oft valdið ágreiningi og vonbrigðum.