Stephenie Meyer má eiga það að aðdáendur hennar eru ekki bara óendanlega tryggir, heldur sýna þeir dýrslega grimmd gagnvart þeim sem dissa Twilight, hvort sem það eru persónurnar, samtölin, hugmyndirnar, sögustefnur eða bara fyrirbærið í heild sinni. Þó að þessum sögum fylgi svakalegt hatur líka þá ætti Meyer að kalla sig sátta með allt fólkið sem dýrkar það sem hún skrifar. Það versta er bara að þeir sem elska Twilight – og þá ekki sem „guilty pleasure,“ heldur stinga sér alveg á kaf ofan í þetta – eru soddan fávitar. Þeir éta upp allt þetta rugl sem aðalpersónurnar ganga í gegnum og eru haldin einhvers konar ranghugmyndum um að ástarsagan sé falleg og hjartahlý, þrátt fyrir að Bella Swan sé með skynsemi á við þrettán ára gelgju. Aðdáendur pæla ekkert í því hvað hún tekur eigingjarnar og heimskulegar ákvarðanir og ég mun aldrei skilja hvernig hún sér ekki sólina fyrir Edward, en nýtur þess samt að trekkja upp væntingarnar hjá Jacob. Ég þoli hana ekki!
Ég las aldrei bækurnar en hingað til er þetta það sem ég hef fengið út úr sögunni, dæmt út frá myndunum:
BELLA: „Ómægat. Edward er bestastur í heimi! Hann er tótallý hinn eini sanni.“
EDWARD: „Ég elska Bellu, og ef ég segist vera að vernda hana þegar ég horfi á hana í svefni þá er ég rómantískur.“
JACOB: „Hey, bíddu. ÉG elska Bellu.“
BELLA: „Hæ, Jake. Ég fíla þig í geggt mikla klessu, sko!“
EDWARD: „En hvað með mig??“
BELLA: „Æ, þúst. Ég fíla þig náttla meira! Ég er líka tilbúin til að fórna öllu til að breytast í vampíru og vera með þér alltaf. Því maður sér nefnilega aldrei eftir stórum ákvörðunum sem maður tekur þegar maður er átján ára…“
Síðan er dreift yfir þetta ýmsar útpældar reglur um hvernig heimurinn virkar. Sá heimur er reyndar nokkuð athyglisverður og það er í raun fullt af aukapersónum sem eru langt frá því að vera leiðinlegar. Öllu er samt sópað til hliðar því þessi undarlega mixtúra af rómantískri fantasíu og stefnulausum ástarþríhyrningi þvælist alltaf fyrir.
Meyer virðist samt vita hvað aðdáendur sagnanna eru miklar ljóskur, og með Breaking Dawn er eins og hún sé annað hvort að grilla í þeim eða sjá hversu langt hún getur gengið í absúrdleika án þess að nokkur segist vera annað en sáttur. Það er gjörsamlega ómögulegt að taka öllu sem gerist í þessari sögu alvarlega, og miðað við það sem ég hef lesið reynir bíómyndin að tóna ýmislegt niður. Snjöll ákvörðun, en sama hvað maður fínpússar skít lengi þá verður hann aldrei neitt mikið meira en bara skítur.
Breaking Dawn fer með Twilight-söguna í svo bjánalegar áttir að það mætti halda að þetta væri einhvers konar paródíuendir. Myndin hefur svosem ágæta kosti. Myndatakan er fín (Guillermo Navarro er líka fagmaður sem lætur hvaða gigg sem er líta þokkalega út), Kristen Stewart pirrar mig aðeins minna núna, sem er mikill plús, og miðað við hinar myndirnar hefur þessi aðeins einbeittari strúktúr (brúðkaup – brúðkaupsferð – ólétta. Mjög einfalt); Hún tekur sinn tíma í að byggja upp lykilsöguþráðinn, en eftir það líður manni eins og það sé stöðug þróun. Í hinum myndunum fannst mér oft eins og sögurnar skriðu bara áfram allan tímann á sniglahraða án þess að sýna merki um einhverja orku eða atburðarás, nema rétt í endann.
Þótt frásögnin sé betri þá þjáist flæðið samt af sökum þess að þetta er aðeins annar helmingurinn af stærri sögu. Ég var samt hissa að sjá hversu vel þessi getur staðið á eigin fótum sem sjálfstæð mynd, annað en t.d. fyrri hluti Deathly Hallows-myndanna. Það sem dregur Breaking Dawn: Part 1 þó mest niður, fyrir utan það að vera Twilight-mynd, er að hún er alveg ónauðsynlega hæg og fjandsamlega leiðinleg fyrsta klukkutímann, áður en nokkur skapaður hlutur gerist til þess að ýta sögunni áfram. Aðdáendur bókanna spá ekkert í framvindu eða gildum handritsreglum því þeir gera ekki miklar kröfur til bíómyndanna. Þeir vilja bara sjá eins mikið og hægt er, og þeirra vegna má alveg mjólka fjögurra tíma mynd úr lokabókinni.
Breaking Dawn: Part 1 er líka hættulega nálægt því að vera sú fyndnasta í seríunni, og þá meina ég að sjálfsögðu að hún sé óviljandi hallærisleg. Það er auðvitað mjög slæmt mál þegar um er að ræða sögu með svona mikilli dramatík. Það eru kannski tvær eða þrjár senur sem virka, þar á meðal þessi sem sýnir fæðinguna. Þau atriði sem virka hins vegar ekki missa allsvakalega marks og verða kjánalega fyndin. Það er vegna þess að sagan tekur sig svo merkilega alvarlega og svo eru stefnurnar í henni bara svo asnalegar að maður er lengi að jafna sig. Það er ein sena með Taylor Lautner og nýfæddu barni sem er hlægilegri ein og sér heldur en öll sú tilhugsun að sjá hann leika hasarhetju í Abduction. Leikstjórinn gerði það sem hann gat til að senan yrði ekki jafnslæm og í bókinni (að svo mér skilst), en hugmyndina á maður mjög erfitt með að kyngja. Vægast sagt vandræðaleg lausn á stóru vandamáli í sögunni og ég trúi því ekki að aðdáendur taki hana auðveldlega í sátt.
Það er jafn furðulegt og það er sorglegt að sjá leikstjóra eins og Bill Condon taka svona auðfengnum pening að sér. Hann hefur gert stórfína hluti (Gods & Monsters, Kinsey) og prufað sig í ýmsu skrautlegu (Dreamgirls) en hérna tekur hann stórt skref afturábak, alveg eins og hinir þrír leikstjórarnir sem komu að þessari seríu. Condon sýnir nokkur merki um fersk stílbrögð en alls ekki nógu oft. Áhorfið verður svo ekkert skárra með tónlistarvali leikstjórans. Alveg pínlegt.
Mér fannst þessi tiltölulega skárri heldur en fyrstu tvær myndirnar, en það segir varla neitt. Þegar öllu er á botninn hvolft vita allir hvort þeir muni sjá þessa mynd eða ekki. Fólk mun annað hvort sjá hana til að hlæja að henni, sjá hana vegna mikillar umhyggju gagnvart efninu (sem þýðir að það fólk muni njóta hennar skilyrðislaust) eða sjá hana vegna þess að kærastan fékk að ráða. Aðdáendur verða hrifnir, giska ég, og munu lítið neikvætt hafa að segja þangað til að þeir vaxa upp úr þessu.
Það gerist á endanum.
(5/10)
Hvernig fannst þér Breaking Dawn: Part 1?