Nýtt plakat er komið út fyrir Iron Man 3 með illmenninu The Mandarin, sem leikið er af stórleikaranum Ben Kingsley.
Kingsley er öðruvísi á þessu plakati en við höfum séð hann í öðrum myndum; slakur, ofursvalur í grænum slopp yfir hergalla, með sólgleraugu og tíu hringi á fingri.
The Mandarin, eins og Stan Lee skapaði hann árið 1964, er meistari í bardagalistum og vísindum. Í Iron Man 3 er honum lýst sem hryðjuverkamanni sem hefur einsett sér að sanna að það séu engar hetjur til.
„Sumir kalla mig hryðjuverkamann,“ segir The Mandarin í stiklu myndarinnar. „Ég lít á sjálfan mig sem kennara. Fyrsta lexía: Hetjur, þær eru ekki til.“
Og til að sanna mál sitt þá sprengir hann heimili Tony Stark í tætlur, og allt vopnabúr Iron Man í leiðinni.
Samkvæmt söguþræði myndarinnar þá er það ekki nóg til að eyða baráttuþreki Tony Stark og Iron Man lifir þó svo búningurinn hans hafi verið eyðilagður.
Iron Man 3 er leikstýrt af Shane Black og aðrir leikarar eru Robert Downey Jr., sem leikur Iron Man, Guy Pearce, Don Cheadle, Gwyneth Paltrow og James Badge Dale.
Myndin kemur í bíó í Bandaríkjunum 3. maí nk.