… og það er ekki Matthew Vaughn sem mun halda um taumana.
Skaparar Kick-Ass, aðallega Mark Millar höfundur myndasagnanna, hafa reglulega talað um möguleikann á framhaldi af myndasögumyndinni frábæru sem kom, sá og sigraði (hugi myndasögunörda, því miður ekki miðasöluna) árið 2010. Þrátt fyrir þau hvatningarorð virtist sem lítil hreyfing væri á myndinni, og voru einhverjir farnir að missa trúna á að hún myndi yfirleitt verða að veruleika. Matthew Vaughn er horfinn til annara verka, en hann er að undirbúa næsta X-Men framhald, og krakkarnir sem léku í myndinni verða eldri með hverjum deginum.
Komið er á daginn að maður að nafni Jeff Wadlow verður líklega fenginn til þess að skrifa og leikstýra Kick-Ass 2, og Universal er að nálgast samninga um að dreifa myndinni. Framleiðslan þarf þá fara af stað sem fyrst, en verið er að miða á að gefa myndina út vorið 2013. En hver er þessi Wadlow? Hann á aðeins að baki tvær kvikmyndir, hryllingsmyndina Cry_Wolf frá 2005, og íþróttamyndina Never Back Down. Hvoruga hef ég séð, en ef að imdb.com hefur rétt fyrir sér voru þær engin meistaraverk. Búist er við því að þau Aaron Johnson, Chloe Moretz og Christopher Mintz-Plasse snúi aftur, en persónur þeirra eiga veigamikinn sess í myndasögunni sem Kick-Ass tvö byggir á.
Í fullkomnum heimi hefði ég frekar viljað sjá Vaughn leikstýra Kick-Ass 2 en annari X-Men mynd, en í mínum huga er þetta klárlega betra en ekkert. Taka ber fram að Vaughn er ennþá viðriðinn verkefnið sem framleiðandi (Millar segir hann vera „að taka Empire Strikes Back á þetta“), og við verðum að vona að hann hafi séð eitthvað við Wadlow sem umheimurinn þekkir ekki enn. Hvað segja lesendur? Menn ennþá spenntir?