Keðjusagarleikkona látin

Marilyn Burns In 'Future Kill'Marilyn Burns, leikkonan sem er frægust fyrir hlutverk sitt í hinni sígildu hrollvekju The Texas Chain Saw Massacre, er látin, 65 ára að aldri.

Burns var fædd í Pennsylvania og uppalin í Texas. Hún lék mikið í skóla og fyrsta hlutverk hennar í kvikmynd var í mynd Robert Altman, Brewster McCloud, þegar hún var í leiklistarnámi í háskólanum í Austin í Texas.

Hún lék nokkur lítil hlutverk til viðbótar, en stóra tækifærið kom svo þegar hún fékk hlutverk óheppnu táningsstúlkunnar Sally Hardesty í hrollvekju Tobe Hooper frá árinu 1974, The Texas Chain Saw Massacre, sem er hennar minnisstæðasta hlutverk.

Burns lék síðar í mynd Hooper, Eaten Alive, og lék hlutverk Linda Kasabian í Charles Manson stuttseríunni Helter Skelter. Þá lék hún gestahlutverk í Texas Chainsaw Massacre: The Next Generation frá árinu 1994 og í Texas Chainsaw 3D frá árinu 2013.