Kapteinninn heitir nú Sir Stewart

Breski stórleikarinn Patrick Stewart, sem þekktur er fyrir leik sinn í hluverki Jean-Luc Picard í „Star Trek: The Next Generation“ hefur nú fengið heiðursnafnbótina Sir Patrick Stewart eftir að Elísabet önnur Englandsdrottning aðlaði leikarann í Buckingham höll í dag, miðvikudag.
En þrátt fyrir frægð Stewarts í hlutverki kapteinsins, þá er Stewart einnig mjög virtur sviðsleikari.

Stewart, sem er 69 ára gamall, heillaðist af leikhúsinu sem barn og sagði að Sir Laurence Olivier, Sir John Gielgud og Sir Alec Guinness hefðu verið hetjurnar hans. „Að vera nú kominn í hóp með þessum mönnum er það mikilvægasta sem hefur komið fyrir mig sem leikara,“ sagði Sir Stewart.

Stewart gekk til liðs við Royal Shakespeare Company þegar hann var ungur maður og var árið 2008 tilnefndur til Tony verðlaunanna fyrir túlkun sína á „Macbeth.“