Fyrirtækið NRG framkvæmir tíðar viðhorfsrannsóknir fyrir kvikmyndageirann, en fyrirtækið er nokkurs konar Gallup Hollywood borgar. Nýjasta könnun NRG sýnir að um 20-25% aðspurðra treystu sér ekki til að heimsækja kvikmyndahús næstu vikur vegna skotárásarinnar sem átti sér stað fyrir stuttu í Colorado á sýningu The Dark Knight Rises.
Þetta skapar áhyggjur fyrir helstu stórfyrirtækin í Hollywood, en næstu helgi verða frumsýndar nokkuð stórar myndir líkt og Step Up Revolution (jesús kristur, hafiði séð stikluna ?) og The Watch með Ben Stiller, Vince Vaughn og Jonah Hill í aðalhlutverkum. Nýjustu fréttir herma að tekjur þessara mynda munu skerðast verulega ef spáin gengur eftir.
Þrátt fyrir þessa hryllilegu skotárás þá hefur The Dark Knight Rises gengið ágætlega í bíó, en myndin hefur nú þegar þénað yfir 340 milljónir dollara á heimsvísu, sem telst ansi gott.