Alríkisdómari hefur vísað frá kærumáli sem leikstjórinn Quentin Tarantino höfðaði á hendur fréttamiðlinum Gawker Media á grundvelli höfundarréttarbrota fyrir að dreifa handriti sínu að kvikmyndinni The Hateful Eight. Ástæðan er í stuttu máli sú að fréttamiðilinn benti einungis á annað lén sem hýsti handritið og er því ekki hægt að sakfella þá fyrir höfundarréttarbrot.
Handritinu var lekið til fjölmargra í kvikmyndageiranum í Hollywood, síðan rataði það að lokum til Gawker Media og settu þeir það á heimasíðuna sína undir yfirskriftinni „Hérna er handritið að Hateful Eight, eftir Tarantino.“
Tarantino hætti við gerð myndarinnar eftir að handritið að myndinni lak til fjölmiðla. Tarantino segist hafa komist að lekanum þegar umboðsmenn byrjuðu að hringja í hann og biðja um hlutverk fyrir leikara sína. Það lítur þó út fyrir það að leikstjórinn sé byrjaður að endurskrifa handritið ef marka má orð hans á leiklestri á The Hateful Eight um síðustu helgi. Þar sagðist leikstjórinn vera að skrifa annað uppkast og er því ekki við öðru að búast en að myndin gæti orðið að raunveruleika.