Júragarðurinn verður vinsælasti ferðamannastaður heims

Framhaldsmyndin Jurassic World gerist 22 árum á eftir atburðunum í fyrstu Jurassic Park-myndinni. Þetta verður fjórða myndin í seríunni og verður hún frumsýnd 2015, þegar einmitt 22 ár verða liðin frá því að fyrsta myndin kom út árið 1993.

Colin Trevorrow leikstýrir myndinni, en það kom nokkrum á óvart því Trevorrow er nokkuð óreyndur og hefur aðeins leikstýrt einni mynd, Safety Not Guaranteed sem kom út árið 2012.

jworld

 

Það hefur verið mikill þrýstingur á Trevorrow um söguþráð og innihald myndarinnar. Leikstjórinn var í viðtali við vefsíðuna Slashfilm fyrir stuttu og sagði þar að eyjan sem risaeðlunar séu á verði einn vinsælasti ferðamannastaður heims.

„Jurassic World gerist á eyjunni Isla Nublar, þar sem um 20.000 manns heimsækja garðinn á degi hverjum. Fólki er siglt frá Costa Rica og á eyjunni er hótel, golfvöllur, safarí-ferðir, veitingastaðir og auðvitað risaeðlur. Gestir garðsins geta skoðað risaeðlurnar í návígi og er garðurinn sannkallaður draumur John Hammond,“ sagði Trevorrow.

jurassicworld2

Með helstu hlutverk í myndinni fara m.a. Chris Pratt, Omar Sy, Idris Elba, Bryce Dallas Howard, Vincent D’Onofrio, Jake Johnson og Irrfan Khan. Persóna Chris Pratt hefur verið sögð vera umsjónarmaður risaeðlanna, en Treverrow sló á þær sögusagnir í viðtalinu og segir að persónan sé að rannsaka þær.