Leikstjórinn Cameron Crowe staðfesti í viðtali við Indiewire í dag að Jónsi hafi verið ráðinn til þess að sjá um tónlistina í næstu kvikmynd hans. Jónsi sá einnig um tónlistina í síðustu mynd Cameron Crowe, We Bought A Zoo, sem kom út vestanhafs um jólin en verður frumsýnd á Íslandi 30.mars. Crowe hefur m.a. leikstýrt myndum eins og Almost Famous og Jerry Maguire.
Samstarf þeirra gekk framar vonum við gerð We Bought A Zoo sem skartar Matt Damon í aðalhlutverki. Næsta mynd Crowe hefur enn ekki hlotið nafnbót en Crowe lýsir henni sem gamanmynd undir áhrifum frá Preston Sturges, en Sturges hlaut Óskarsverðlaun árið 1941 fyrir besta handrit (fyrir myndina The Great McGinty). Sturges var frumkvöðull í kvikmyndabransanum og var virtur handritshöfundur og leikstjóri á fjórða áratug síðustu aldar.
Crowe vonast til þess að klára handritið sem fyrst og tökur hefjast að öllum líkindum í sumar eða haust á þessu ári.
Að lokum fylgir viðtal sem var tekið fyrir stuttu við Jónsa og Crowe þar sem þeir tala um gerð tónlistarinnar í We Bought A Zoo.
Fyrir áhugasama má einnig sjá viðtal Rolling Stone við Jónsa og Crowe hér fyrir neðan, en þar talar Crowe um reynslu sína þegar hann var 15 ára á tónleikaferðalagi með Led Zeppelin. Þá reynslu notaði Crowe síðan þegar hann gerði Almost Famous.