Kvikmyndaleikarinn og fyrrum fótboltamaðurinn Vinnie Jones er með húðkrabba.
Jones, sem er 48 ára gamall, og sneri sér að kvikmyndaleik eftir farsælan fótboltaferil, segir að hann hafi komist að því að hann var með sjúkdóminn í febrúar sl. þegar hann leitaði til læknis eftir að hann fann lítinn hnúð undir hægra auga sínu.
„Krabbamein er hræðilegt orð. Það gerir mann dauðhraæddan,“ sagði Jones við tímaritið Sun on Sunday.
Jones sagði að eiginkona hans Tanya, væri einnig með sjúkdóminn.
„Ég hef tekist á við marga stærstu og ljótustu kappa á fótboltavellinum og komið inn á skítuga bari og lent í áflogum. En þetta er minn erfiðasti og ógnvænlegasti andstæðingur til þessa.“
Læknar fjarlægðu hnúðinn, sem var illkynja. Jones segir að eftir fyrstu aðgerðina hafi verið gerðar tvær aðgerðir til viðbótar til að fjarlægja hnúða undan augunum og aftan á höfðinu.
Jones, sem býr í Los Angeles, spilaði fótbolta með Wimbledon í Englandi, en þreytti frumraun sína í kvikmyndum í Lock, Stock and Two Smoking Barrels.
Kollegi hans, Hugh Jackman, 45 ára, sagði frá því fyrr í vikunni, að hann væri einnig í meðferð vegna húðkrabba.