Ókrýndur konungur evrópskra hasarmynda, Luc Besson, á nú í viðræðum við Angelinu Jolie um að taka að sér aðalhlutverk í dramatískum spennutrilli sem Besson skrifaði handritið að, og ætlar sé aldrei þessu vant að leikstýra. Ekki er mikið meira vitað um myndina, en hún er sögð eiga að gerast í heimi vísinda, og verða í ætt við myndir Besson frá 10 áratugnum, eins og Léon, og La Femme Nikita.
Besson hefur undanfarinn áratug smám saman orðið þekktari sem handritshöfundur og framleiðandi misgóðra hasarmynda með ferskum leikurum, á borð við Taken, The Transporter og Columbiana. Þess vegna hljómar þetta pínulítið eins og endurkoma hjá kappa í leikstjórastólinn, en það er þó alls ekki tilfellið. Hann hefur verið að leikstýra á fullu – bara ekki í hasarmyndageiranum sem hann er sennilega frægastur fyrir. Nýlegar myndir frá honum eru meðal annars Artúr og Mínimóarnir og framhöld hennar 2, Ævintýri Adele Blanc Sec og svo The Lady, sem kom út nú á árinu og fjallar um mannréttindabaráttukonuna Aung San Suu Kyi í Búrma.
Jolie er annars á fullu núna að kynna fyrstu mynd sína sem leikstjóri, Bosníska stríðsdramað In The Land Of Blood And Honey. Hún er með nokkur verkefni á teikniborðinu næst, mynd um Kleópötru drottningu, Maleficent, sem fjalla á um vondu nornina í Þyrnirós, og svo myndina Gertrude Bell sem Ridley Scott ætlar að gera og sögð er vera söguleg epík – einskonar „kvenkyns Lawrence of Arabia“. En spekúlantarnir segja að ef af verði, muni þessi mynd hafa forgang. Við sjáum hvað setur. Þetta hljómar allavega spennandi í mínum eyrum, gaman að fá Besson í leikstjórastólinn aftur á dúndrandi hasarmynd og hver er betri en Jolie í aðalhlutverk slíkrar myndar.