John Wick 4 breytir engu um gerð The Continental

Sú staðreynd að búið er að gefa grænt ljós á gerð fjórðu John Wick kvikmyndarinnar, mun ekki hafa áhrif á hliðarverkefni kvikmyndaraðarinnar, sjónvarpsþáttaröðina The Continental, sem nefnd er eftir hótelinu sem kemur við sögu í myndunum. Hótelið er einskonar griðastaður helstu leigumorðingja heimsins. Þar er bannað að drepa, þó það sé svo sannarlega ekki alltaf virt, eins og öllum þeim sem séð hafa myndirnar ætti að vera í fersku minni.

John Wick á hesti í þriðju myndinni.

„The Continental“ mun gerast mun framar í sögusviðinu,“ sagði framkvæmdastjóri hjá Starz sjónvarpsstöðinni, Jeffrey Hirsch, í framsöguerindi á kynningarferðalagi Television Critics Association. „Þetta verður ný og fersk nálgun á The Continental hótelið, og mun fara dýpra í það hvernig það tengist John Wick. Þættirnir munu gerast töluvert á undan kvikmyndunum.“

Starz tilkynnti upphaflega um gerð sjónvarpsþáttanna fyrir meira en ári síðan. Hirsch bætti við að þar sem John Wick: Chapter 4 yrði frumsýnd árið 2021, þá myndi sjónvarpsþáttaröðin ekki verða frumsýnd fyrr en eftir frumsýningu myndarinnar.

Um það hvort að aðalleikari John Wick, Keanu Reeves, sem er einn af framleiðendum sjónvarpsþáttanna, muni koma fram í þáttunum, vildi Hirsch ekkert segja. Það er annað en annar yfirmaður hjá Starz, Carmi Zlotnik sagði í janúar árið 2018, þegar hann sagði að Reeves myndi að minnsta kosti koma fram í gestahlutverki.

Aðalframleiðandi og handritshöfundur The Continental verður Chris Collins. Basil Iwanyk frá Thunder Road Picture verður einn af framleiðendum, ásamt leikstjórum kvikmyndanna, Chad Stahelski og David Leitch, handritshöfundinum Derek Kolstad og Reeves eins og fyrr sagði. Stahelski mun leikstýra fyrsta þættinum.

John Wick: Chapter 3 — Parabellum,” þriðja myndin í seríunni, halaði inn meira en 300 milljónum bandaríkjadala í miðasölunni um allan heim nú í sumar, en hún var frumsýnd í maí sl.