John C. Reilly, sem lék aðalhlutverkið í myndinni um Rústarann Wreck it Ralph, sem frumsýnd var árið 2012, hefur tilkynnt opinberlega að von sé á framhaldi á þessari skemmtilegu teiknimynd.
Myndin fjallar um persónu í tölvuleik sem rústar byggingu sí og æ, en þráir ekkert heitar en vera elskaður og dáður.
Orðrómur hefur verið í gangi lengi um framhald, enda þénaði fyrri myndin 470 milljónir Bandaríkjadala í miðasölunni um heim allan, og sló í gegn.
C. Reilly staðfesti þátttöku sína í viðtali við blaðamann á Galway kvikmyndahátíðinni.
John C Reilly announced at the interview today that he has signed on for Wreck it Ralph 2!
— Penny Hart (@pennyrosehart) July 12, 2015
Leikstjóri fyrri myndarinnar, Rich Moore, hefur áður gefið í skyn að í næstu mynd myndi Ralph fara inn í heim internet-tölvuleikja og leikjatölvuleikja, og jafnvel hitta fyrir persónur úr Nintendo tölvuleikjum eins og Mario, Luigi, Link og Zelda.
Ekki er vitað um fleiri leikara, né hvenær von er á myndinni í bíó.