Scarlett Johansson og Reese Witherspoon eru á meðal leikkvenna sem nefndar hafa verið sem líklegar til að túlka fyrrum utanríkisráðherra og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, Hillary Clinton, í nýrri bíómynd.
Myndin, sem heitir Rodham, og mun fjalla um Clinton á hennar yngri árum, er væntanleg í bíó í kringum forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016, en talið er að Clinton geti orðið á meðal frambjóðenda.
Myndin mun að mestu gerast árið 1974, þegar Clinton starfaði í Washington sem lögfræðingur.
Á meðal leikkvenna sem sagt er að komi til greina að leika Clinton eru Amanda Seyfried, sem lék í Les Misérables, Jessica Chastain, úr Zero Dark Thirty, Reese Witherspoon, og Scarlett Johansson, en hún sást síðast í bíó í hlutverki Janet Leigh í Hitchcook.
Leikstjóri Rodham, James Ponstoldt sagði í samtali við breska blaðið The Independent: „Þetta eru allt frábærar leikkonur. Við erum mjög lánsöm að margar leikkonur eru tilbúnar að taka að sér þetta hlutverk. Okkar staða er öfundsverð að því leyti.“
„Hvar sem fólk er í pólitík eða hvað þeim finnst um Hillary Clinton, þá efast enginn um gáfur hennar og vinnusemi. Mig langar að fá frábæra leikkonu til að túlka það.“
Witherspoon var í fréttunum í síðasta mánuði þegar hún var handtekin í Atlanta, Georgia, vegna ósæmlegrar hegðunar á almannafæri. Hún viðurkenndi síðar að hún hefði drukkið aðeins og mikið, og sagði að hún væri mjög miður sín, en atvikið náðist á myndband.
Handrit myndarinnar, sem skrifað er af Young il-Kim, komst á hinn svokallað Svarta lista eða „Black List“ á síðasta ári, en á honum eru bestu handrit í Hollywood sem ekki hafa verið kvikmynduð.
Handritinu var lekið til vefmiðilsins The Daily Beast fyrr í þessum mánuði, og vakti þá athygli fyrir djarfar senur. Kim sagði við The Daily Telegraph: „Ég var ekki að skrifa 50 Shades of Rodham, eins og ýmsir fjölmiðlar voru að teikna þetta upp. Ég er er sjálfur leiðindatepra, með lítið ímyndunarafl.“
Spurður að því hvort að lokaútgáfa handritsins myndi innihalda kynlífssenur, sagði Kim: „Þetta er allt í þróun, þannig að ég veit það ekki ennþá. Hún var aðlaðandi 26 ára gömul kona á þessum tíma og framtíðin var björt. Og það er það sem við einblínum á.“