Johansson Nuddar og togar

Leikkonan Scarlett Johansson og leikstjórinn Rupert Sanders unnu síðast saman að vísindaskáldsögunni Ghost in The Shell, og hafa nú ákveðið að rugla saman reitum á ný í allt annars konar kvikmynd. Um er að ræða sannsögulega mynd um konu sem varð glæpaforingi meðal annars í tengslum við eigin nuddstofur og fleira. Vinnuheiti myndarinnar er Rub & Tug, eða Nudda og toga, í lauslegri íslenskri þýðingu.

Hvort sem það heiti mun lifa allt fram á frumsýningardag eða ekki, þá er 100% víst er að kvikmyndin er komin í framleiðslu hjá New Regency framleiðslufyrirtækinu, að því er Empire greinir frá.  Segir sagan af Jean Marie Gill sem var áberandi persóna í Pittsburgh í Bandaríkjunum á áttunda áratug síðustu aldar. Hún bauð mafíunni birginni og rak keðju ólöglegra nuddstofa þar sem boðið var upp á vændi, auk þess sem hún dreifði einnig sterum sem gáfu ruðningsliðinu Pittsburgh Steelers byr undir báða vængi.

Hún naut fulltingis vina sinna í samfélagi samkynhneigðra í borginni, og klæddi sig gjarnan eins og karlmaður, til að ná betri árangri í viðskiptunum. Auk þess að segja frá glæpasamstarfseminni, þá mun ástarsambandi hennar og kærustunnar Cynthia verða gerð góð skil í kvikmyndinni.

Undanfarið hefur Johansson unnið með leikstjóranum Taika Waititi að Jojo Rabbit, og mun snúa aftur sem Natasha Romanoff í næstu Avengers ofurhetjukvikmynd. Þá er Marvel með í undirbúningi sérstaka mynd byggða á persónu hennar í The Avengers.