James Cameron vill 60 FPS

Leikstjórinn James Cameron hefur tilkynnt að hann vilji taka upp Avatar framhaldsmyndirnar í 60 römmum á sekúndu (e. frames per second), en venjan er að taka upp myndir í 24 römmum á sekúndu. Til samanburðar má nefna að Hobbitinn er tekinn upp í 48 römmum á sekúndu sem er sami rammafjöldi og IMAX HD tæknin.

Cameron sýndi prufuupptökur úr Avatar í 48 römmum á sekúndu fyrir kvikmyndahúsaeigendur fyrir stuttu. ,,Flestir í salnum misstu andann yfir sumum atriðum. Þetta gekk enn betur þegar ég sýndi þeim sömu upptökur í 60 römmum á sekúndu“ sagði Cameron í viðtali.

Fleiri rammar á sekúndu þýðir einfaldlega að myndin verður enn skýrari. Margir kannast við að horfa á hasaratriði í myndum þar sem allt verður óskýrt einfaldlega vegna þess að fjöldi ramma á sekúndu sem eru notaðir eru ekki nógu margir. Tölvuleikjaspilarar kannast hiklaust við þessi fræði. Ef þrívíddarmyndir eru teknar upp á 48 eða 60 römmum á sekúndu þá hverfur þetta svarta flökt sem margir kvikmyndaáhugamenn kannast við (margir fá hausverk út af þessu). Margir eru þó áhyggjufullir yfir því að myndir glati hasarfílingnum og ‘filmulúkkinu’ við þessa breytingu.

Þrátt fyrir að þessar vangaveltur séu í eldlínunni núna þá er upprunalega hugmyndin gömul. Kvikmyndakanónan Douglas Trumbull vildi nota 60 ramma á sekúndu við gerð myndarinnar Brainstorm árið 1983. Hann fann upp tækni sem notaði fleiri ramma sem hann kallaði Showscan. Framleiðendur og kvikmyndahúsaeigendur tóku illa í hugmyndina því kostnaðurinn var svo hár.

James Cameron telur að heimurinn sé nú tilbúinn. Hann, ásamt fleirum, eru á einu máli um að þetta sé það sem koma skal og gæðamunurinn á milli 24 og 60 ramma á sekúndu bjóði hreinlega upp á allt aðra upplifun.