Disney afþreyingarrisinn hyggst endurræsa risaseríuna Pirates of the Caribbean. Samkvæmt frétt kvikmyndasíðunnar Deadline, þá hefur fyrirtækið átt fundi með Deadpool höfundunum Rhett Reese og Paul Wernick, í þessum tilgangi.
Auk þess að skrifa handrit beggja Deadpool myndanna, þá skrifuðu þeir Rheese og Wernick handritið að Zombieland og 6 Underground, spennumyndarinnar sem stórmyndaleikstjórinn Michael Bay er að gera fyrir Netflix með Ryan Reynolds í aðalhlutverkinu.
Peningamaskínan Jerry Bruckheimer mun áfram vera aðalframleiðandi seríunnar, en enn er óvíst hvaða leikarar myndu snúa aftur. Sögusagnir hafa verið í vikunni um að Johnny Depp muni hugsanlega ekki snúa aftur í hlutverki Captain Jack Sparrow, en ekkert er þó staðfest um slíkt á þessari stundu. Depp hefur leikið persónuna í fimm myndum á síðustu 15 árum. Tekjur myndanna til þessa nema samtals 4,5 milljörðum bandaríkjadala, eða litlum 543 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.
Nýjasta Pirates myndin heitir Dead Men Tell No Tales, og var frumsýnd árið 2017 með leikstjórann Joachim Rønning við stýrið.