Jack-Jack breytist í eldhnött í fyrstu kitlu úr The Incredibles 2

Nú eru 13 ár síðan við sáum síðast Parr fjölskylduna ótrúlegu í Pixar teiknimyndinni The Incredibles, en miðað við fyrstu kitlu úr framhaldsmyndinni, Incredibles 2, þá virðist sem sagan í þeirri mynd hefjist þar sem þeirri síðustu lauk, og litla barn ótrúlegu hjónanna sýnir hvað í því býr, pabbanum til mikillar gleði.

Þó að fyrri myndin hafi notið gríðarlegra vinsælda þá var það ekki fyrr en fyrir fáeinum árum sem leikstjórinn Brad Pitt fékk grænt ljós á að gera framhaldsmynd, og nú hefur fyrsta kitlan litið dagsins ljós, eins og fyrr sagði.

Kitlan segir manni í raun ekkert um söguþráð myndarinnar, en við fáum að kynnast smábarninu Jack-Jack, og smá kvikmyndatónlist frá tónskáldinu Michael Giacchino, til að gera okkur spennt.

Jack-Jack virðist búa yfir miklum ofurkröftum, bæði leiser sjón, auk þess sem hann getur breytt sér í eldhnött.

Eftir því sem Vanity Fair kvikmyndaritið kemst næst þá mun teiknimyndin fjalla aðallega um Elastagirl, öðru nafni Helen Parr, sem reynir að búa til eðlilegt heimilislíf á sama tíma og fjölskyldan brúkar sína ofurkrafta til að berjast við þrjóta og þorpara.

Fjölskyldan reynir að venjast þeirri tilhugsun að Jack-Jack, sem þau héldu að væri ósköp venjulegur, hefur ofurkrafta, en kann ekkert að fara með þá.

The Incredibles 2 kemur í bíó á Íslandi 22. júní á næsta ári.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: