Íslensk Ástarsaga valin á virta hátíð í Frakklandi

Íslenska stuttmyndin Ástarsaga eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur hefur verið valin í alþjóðlega keppni á hinni virtu stuttmyndahátíð í Clermont-Ferrand í Frakklandi sem mun eiga sér stað í febrúar 2013.
Í tilkynningu frá framleiðanda segir að aðeins 2% af innsendum myndum séu valdar í keppnina.

Myndin, sem er framleidd af Vintage Pictures og var frumsýnd á Alþjóðlegri Kvikmyndahátíð í Reykjavík fyrr á árinu, er útskriftarmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur úr kvikmyndagerðardeild Columbia háskóla í New York. Ása er handritshöfundur sem og leikstjóri myndarinnar.

Sagan hefst í New York, þegar kærasti Solange – hinn íslenski Baldur – hverfur skyndilega af heimili þeirra og dúkkar svo upp í Reykjavík. Solange ákveður að elta hann en þegar til Íslands er komið er lítið um svör. Þvert á móti tekur við enn stærri ráðgáta.

Með aðalhlutverk fara Katherine Waterston, Walter Grímsson, Elva Ósk Ólafsdóttir og Kristján Franklín Magnús.