Íslendingar með í Emmy tilnefningu – UPPFÆRT

Þýska heimildarmyndin Wettlauf Zum Südpol, sem heitir á ensku Race to the South Pole, er tilnefnd til alþjóðlegu Emmy-verðlaunanna sem besta heimildarmyndin. Myndin er framleidd af þýska framleiðslufyrirtækinu Loopfilm en íslenska framleiðslufyrirtækið Sagafilm aðstoðaði við framleiðsluna.

Kristinn Þórðarson framleiðslustjóri hjá Saga Film segir í samtali við kvikmyndir.is að þáttur Sagafilm í verkefninu hafi verið að aðstoða Loopfilm á Íslandi. „Við vorum í tökum í 15 daga uppá Langjökli og sáum um að framleiða með þeim allt leikna efnið.  Ég sá um að framleiðsluna fyrir hönd Sagafilm og gengu tökurnar vonum framar þrátt fyrir misjafnlega gott veður því að tökur stóðu yfir í nóvember 2010.  Að undanskildum aðalhlutverkunum sem voru í höndum þýskra leikara, þá voru allir aðrir leikarar íslenskir og því um 10 manna hópur sem tók þátt fyrir utan aukaleikara.  Þar fyrir utan var tökuliðið ca. 30 manns,“ segir Kristinn.

Leikstjórinn féll fyrir landi og þjóð

Hann segir aðspurður að það hafi alltaf miklu þýðingu að fá svona tilnefningar. „Það er náttúrulega alltaf heiður þegar svona stór aðili velur og tilnefnir verkefni sem við tókum þátt í.  Þannig að þetta er hvetjandi fyrst og fremst og heiður.  Við stefnum svo að því að vinna fleiri verkefni með Oliver Halmburger leikstjóra verkefnisins því hann féll algerlega fyrir landi og þjóð.  Vonandi finnst annað verkefni á næsta ári til að vinna með honum hérna heima.“

Wettlauf Zum Südpol fjallar um örlagaríkt einvígi á milli Norðmannsins Roald Amundsen og Bretans Robert Falcon Scott, menn sem lögðu líf sitt að veði fyrir hundrað árum til að komast að enda jarðar – á sjálfan suðurpólinn. Roald og fimm manna hópur hans var fyrstur til að komast á áfangastað þann 14. desember árið 1911. Robert komst á pólinn aðeins 34 dögum seinna. Roald og hans hópur komst áfallalaust til baka af suðurpólnum á meðan Robert og hans menn létust allir á leiðinni heim.

Race to the South Pole keppir við heimildarmyndirnar Across Land, Across Sea frá Suður-Kóreu, Hiter’s Escape frá Argentínu og Terry Pratchett: Choosing to Die frá Bretlandi á alþjóðlegu Emmy-verðlaunahátíðinni.

Verðlaunin verða afhent þann 19. nóvember næstkomandi í New York-borg.