Ísland leikur stórt hlutverk í vísindaskáldsögunni The Shaman, eftir Marco Kalantari, en myndin er stuttmynd sem hefur verið sýnd á fjölda kvikmyndahátíða síðustu misserin, þar á meðal á hinni þekktu Tribeca hátíð í New York fyrr á þessu ári, þar sem hún var heimsfrumsýnd.
Tökur á myndinni fóru fram í Austurríki, þar sem tekið var upp á fimm dögum, og einum degi var síðan varið í tökur á Íslandi.
Í stuttu samtali við kvikmyndir.is sagði Kalantari að Pegasus framleiðslufyrirtækið hafi verið honum innan handar hér á landi, auk þess sem nokkrir úr tökuliðinu hafi verið íslenskir. „Ég bjó sjálfur á Íslandi árið 2005 og var þá leikstjóri hjá Sagafilm. Síðan þá hef ég verið tengdur þessu fallega landi.“
Hann segir einnfremur að vefsíðan io9.com hafi valið myndina eina bestu stuttmynd ársins, og að stiklan úr myndinni sé með meira en 4 milljón áhorf á YouTube.
Myndin gerist á hinu dimma ári 2204, en þá hefur stríð geisað samfellt í 73 ár. Mannkynið hefur nýlega enduruppgötvað hina fornu list töfralækninga ( Shamanism ), en þar trúa menn því að allir menn og hlutir hafi sál. Í miðjum átökum þá fer Töfralæknirinn í transi yfir í aðra veröld til að reyna að sigra risastórar árásarmaskínur óvinarins innan frá.
Sjáðu myndina hér fyrir neðan, mynd um gerð myndarinnar þar fyrir neðan, og að lokum plakat myndarinnar þar fyrir neðan:
THE SHAMAN – a mind-bending short by Marco Kalantari from Marco Kalantari on Vimeo.