Intouchables varð aðsóknarhæsta mynd allra tíma hérlendis í flokki kvikmynda á tungumáli öðru en ensku og íslensku nú verslunarmannahelgina. Rúmlega 43 þúsund gestir hafa nú lagt leið sína á myndina, en heildartekjur Intouchables eru orðnar hvorki meira né minna en 45.029.552 kr.
Intouchables tók þannig fram úr myndum eins og Klovn og Karlar Sem Hata Konur, en ljóst er að heildaraðsókn mun á endanum nálgast 60 þúsund manns sem telst einsdæmi fyrir kvikmynd af þessu tagi. Við erum vanari því að horfa á þess háttar aðsóknartölur fyrir Hollywood myndir með þekktum leikurum og með söguþræði byggðum á þekktu vörumerki líkt og James Bond, Batman eða Harry Potter.
Intouchables mun halda áfram í sýningum í Háskólabíói, Laugarásbíói og Borgarbíói Akureyri á klukkustundar fresti til þess að anna eftirspurn.