Leikstjóri næstu X-Men myndar, X-Men: Days of Future Past tilkynnti á Twitter síðu sinni í gær að hann væri búinn að ráða Omar Sy í leikarahóp myndarinnar, en Sy lék aðstoðarmann milljarðamæringsins í hjólastólnum í óvæntu metsölumyndinni Intouchables, sem sló í gegn hér á landi á síðasta ári og víða um heim einnig.
Nýlega bættist Game of Thrones leikarinn Peter Dinklage í leikarahópinn og nú eru þeir Sy þeir tveir einu í leikarahópnum sem ekki hafa leikið áður í X-Men mynd.
Ekki fylgir sögunni hvaða hlutverk Sy mun leika, né heldur hefur verið upplýst um hlutverk Dinklage.
Leikarahópurinn er sneisafullur af stórstjörnum, en meðal annarra leikara eru Michael Fassbender, James McAvoy, Jennifer Lawrence, Nicholas Hoult, Patrick Stewart, Ian McKellen, Hugh Jackman, Shawn Ashmore, Ellen Page og Anna Paquin.
Frumsýning myndarinnar er áætluð 18. júlí 2014.