Insidious 3 í vinnslu

Eftir frábæra frumsýningarhelgi hrollvekjunnar Insidious: Chapter 2 í Bandaríkjunum nú um helgina, þá biðu framleiðslufyrirtækin Entertainment One, FilmDistrict og Sony Pictures Worldwide Acquisitions ekki boðanna og tilkynntu að hafinn væri undirbúningur að gerð þriðju myndarinnar í seríunni.

insidious

Leigh Whannel mun skrifa handritið, en hann skrifaði einnig tvær fyrri myndirnar.

Insidious: Chapter 2 þénaði 41,1 milljón Bandaríkjadali nú um helgina í Bandaríkjunum.

Aðalleikarar fyrstu tveggja myndanna voru Patrick Wilson, Rose Byrne, Lin Shaye, Ty Simpkins og Barbara Hershey og leikstjóri var James Wan. Óljóst er á þessari stundu hvort að Wan slær til og gerir þriðju myndina, en hann er nýlega búinn að lýsa því yfir að hann sé hættur að gera hryllingsmyndir.

Fyrsta myndin, Insidious, kostaði einungis 1,5 milljón dali, og fjallaði um Lambert fjölskylduna en djöfullinn tók sér bólfestu í syni þeirra. Sony Pictures Worldwide Acquisitions nældi í myndina á kvikmyndahátíðinni í Toronto árið 2010, en myndin endaði með að þéna nærri 97 milljónir dala um allan heim.

Insidious: Chapter 2 kostaði ívið meira, eða 5 milljónir dala, en hefur náð því til baka og gott betur eins og kom fram hér á undan.