Ingvar E. Sigurðsson var í gær tilnefndur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í flokki leikara í aðalhlutverki, fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason. Verðlaunaafhendingin mun fara fram í Berlín þann 7. desember næstkomandi.
Aðrir tilnefndir leikarar eru:
Antonio Banderas í Pain and Glory
Jean Dujardin í AN OFFICER AND A SPY
Pierfrancesco Favino í THE TRAITOR
Levan Gelbakhiani í And Then We Danced
Alexander Scheer í Gundermann
Eins og fram kemur í tilkynningu frá fralmeiðendum Hvíts, hvíts dags þá hefur Ingvar nú þegar unnið til þrennra verðlauna fyrir frammistöðu sína
í myndinni síðan hún var heimsfrumsýnd í Critics’ Week hluta hinnar
virtu kvikmyndahátíðar í Cannes, þar sem Ingvar vann til Rising Star
verðlaunanna. Þá hlaut Ingvar einnig verðlaun fyrir besta leikarann á
alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Transilvaníu, Rúmeníu og á
kvikmyndahátíðinni Festival du nouveau cinema í Montréal, Kanada.
Í tilkynningunni segir einnig að hann hafi hlotið lof hvarvetna í dómum um myndina, þar á meðal hjá hinum virtu kvikmyndatímaritum Cineuropa, Screen International og The Hollywood Reporter.
Hvítur, hvítur dagur hefur nú unnið til samtals 9 verðlauna og er
ennfremur framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna árið 2020.
Annað skipti tilnefndur
Ingvar var síðast tilnefndur til þessara verðlauna árið 2000 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Englar alheimsins eftir Friðrik Þór Friðriksson, en þar hlaut hann áhorfendaverðlaunin fyrir leik sinn. Björk Guðmundsdóttir er eini Íslendingurinn sem hefur unnið til leikaraverðlaunanna á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum og var það fyrir hlutverk hennar í Dancer in the Dark eftir Lars Von Trier árið 2000. Þá hefur framleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures, sem framleiddi Hvítan, hvítan dag, fengið tvær tilnefningar frá Evrópsku akademíunni fyrir fyrri verk sín í leikstjórn Guðmundar Arnar Guðmundssonar, Hvalfjörður var tilnefnd sem besta stuttmyndin árið 2014 og Hjartasteinn vann EUFA háskólaverðlaunin (European University Film Award) árið 2016.
Verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum. Á næsta ári mun
hátíðin verða haldin í Hörpu í Reykjavík.