Idol stjarna verður Playmobil þorpari

Söngvarinn og leikarinn Adam Lambert, sem sló í gegn þegar hann varð annar í áttundu þáttaröð söngvaþáttanna American Idol, hefur verið ráðinn í hlutverk vonda kallsins Emperor Maximus, í væntanlegri Playmobil kvikmynd, Playmobil: The Movie.

Í myndinni mun Lambert leika á móti Harry Potter stjörnunni Daniel Radcliffe, sem leikur leyniþjónustumanninn Rex Dasher.  All About the Boss söngkonan Meghan Trainor mun leika álfadrottninguna.

Rétt eins og í stórsmellinum The Lego Movie, þá mun Playmobil kvikmyndin blanda tölvutækni saman við leikin atriði. Leikkonan Anya Taylor-Joy, sem lék í myndunum The Witch og Split, mun leika aðalhlutverkið, hlutverk Marla sem leitar að litla bróður sínum Charlie, sem Gabriel Bateman leikur, en Bateman er þekktur fyrir leik í hrollvekjunum Annabelle og Light´s Out. 

Grínistinn og leikarinn Jim Gaffigan fer með hlutverk sendiferðabílstjórans Del, og Wendi McLendon-Covey, er einnig í leikhópnum.

Fyrr á þessu ári sagði Lambert, sem hefur verið á tónleikaferðalagi með hljómsveitinni Queen, frá því hvaða Queen lag minnti hann mest á Freddie Mercury heitinn, söngvara Queen. „Þegar ég syng Who Wants To Live Forever, þá hugsa ég um Freddie Mercury,“ sagði Lambert, að því er fram kemur á vef GayTimes.co.uk

„Mér finnst Freddie hafa verið tekinn frá okkur allt of snemma, og mér finnst hann líka hafa verið á undan sínum samtíma. Ég hugsa um það af því að á vissan hátt lifir hann að eilífu af því að við erum að flytja þessi lög.“

Þá sagði Lambert að búningar hans á tónleikaferðalaginu væru undir áhrifum frá litríkum persónuleika og stíl Freddie.

Playmobil myndin kemur í bíó á Íslandi 30. ágúst 2019.