Í kínversku kvikmyndahúsi – seinni hluti

Bergur Ísleifsson ritstjóri Mynda mánaðarins dvelur nú í Kína. Hér fyrir neðan er annar hluti pistils sem hann sendi kvikmyndir.is um dvöl sína í landinu,  en Bergur er núna á leið í bíó að sjá myndina Life of Pi.

Þessi seinni hluti er framhald fyrri hlutans sem finna má hér.

Jæja … ég keypti mér sem sagt miða á myndina Life of Pi. Um leið varð ég dálítð spenntur að sjá hvað biði mín því eins og ég sagði hafði ég lengi ætlað að skella mér í kvikmyndahús hér í Guilin en ekki látið verða af því.

En það er best að láta myndir og myndtexta sjá um rest …

Daginn sem ég fór í kvikmyndahúsið naut ég leiðsagnar kínversks manns. Án hans hefði ég til dæmis ekki vitað hvort myndin sem ég vildi fara á væri með ensku tali eða kínversku. Í staðinn bauð ég honum í mat eins og alsiða er og sjálfsagt í Kína fyrir greiða í stað þess að reiða fram peninga.

Og þetta er hann, sem sagt. Hann heitir Wang. Það er dálítið sérstakt með Kínverjana að þeir hafa flestir tekið sér ensk nöfn líka. Wang heitir til dæmis George á ensku. Því má bæta við að þessi réttur sem er þarna á borðinu var eldsterkur … svo sterkur að ég – sem venjulega elska sterkkryddaðan mat – gat bara borðað hluta af honum.

Þessi réttur var hins vegar alveg frábær. Hef ekki hugmynd hvað var í honum samt.

Og þetta er ég. En nú var kominn tími til að skella sér á bíó!

Þetta er miðasalan. Ég var auðvitað búinn að kaupa miða fyrr um daginn og hafði fengið að velja mér sæti via tölvuskjá. Valdi mér efstu röð fyrir miðju enda væri þá enginn fyrir framan mig því tröpppurnar voru líka í miðju salarins. Síðan fór maður í lyftuna sem er þarna beint af augum og upp á fimmtu hæð! Biðst afsökunar á hvað myndin er hreyfð.

Lenti reyndar í frekar neyðarlegu dæmi í lyftunni. Hún átti víst að taka átta manns en svo þegar átti að leggja í hann með mig og sjö Kínverja neitaði hún að fara af stað vegna yfirþyngdar. Þá fóru tveir Kínverjar út. Enn neitaði lyftan að fara af stað vegna yfirþyngdar. Þá fóru tveir aðrir út. Enn vildi hún ekki fara og blikkaði bara rauðu vegna yfirþyngdar. Og nú litu allir á mig, enda sennilega jafnþungur og þrír Kínverjar. Einn Kínverki til viðbótar fór út og þá loksins samþykkti lyftan að fara upp … með mig og tvo Kínverja. Frekar neyðarleg uppákoma og ég gat ekkert annað en brosað vandræðalega.

Þegar upp var komið var maður kominn inn í anddyrið. Það var frekar lítið, svona sirka jafnstórt og í Laugarásbíó.  Aðeins lengra kannski, en um leið mjórra. Þarna voru borð og stólar og meira að segja nokkrir hæginda. Salirnir voru fjórir og eftir því sem ég best sá þá voru þeir allir jafnstórir … eða litlir, öllu heldur. Það var frekar fámennt í bíó þetta kvöld og flestir greinilega að fara að sjá sömu mynd og ég.

Í öðrum enda salsins var popp- og kóksala. Annað sem var selt þarna var snakk og ís og eitthvað kínverskt smotterísnammi og gúmelaði. Eiginlega bara svipað og á Íslandi nema kannski minna í sniðum. Ég keypti mér popp. Það var hjúpað einhvers konar karamellu og reyndist bara ansi gott. Kostaði 8 júan, eða 160 krónur, svona meðalstór pappadolla.

Og þetta er veggurinn beint á móti innganginum í sal 2, sem ég var að fara í. Glöggir munu sjá að þarna hékk uppi sama plakatið og ég hafði séð fyrir utan, þetta með Hallgrímskirkjuturni og Perlunni. Tækið þarna hálfa, lengst til hægri er hita- og kuldablásari, eftir því sem við á.  Hann var ekki í gangi, enda óþarfi á þessum tíma árs. En nú var kominn tími til að fara í salinn.

Samkvæmt merkingum við innganginn í salinn var stranglega bannað að taka myndir inni í honum. Ég vildi auðvitað ekki láta hanka mig á smáatriðum, en tók þessa samt í laumi. Því miður er hún ekki mjög skýr en sýnir samt hvernig salurinn er. Ég sat sem sagt í efstu röð fyrir miðju, en í allt tók salurinn, lauslega talið, um 180 manns í sæti. Þegar myndin byrjaði var hann sirka hálfsetinn. Gæði myndar og hljóðs reyndust bara í fínu lagi og þrívíddin skilaði sér með ágætum. Sætin voru stór og þægileg og þótt salurinn væri með öllu látlaus virkaði hann samt vel á mig. Og þarna sat ég næstu 2 tímana og horfði á Life of Pi. Ekkert hlé.

Um myndina hef ég bara gott að segja. Þrívíddin var algjörlega frábær og bæði myndataka og öll sviðssetning þannig að manni fannst maður virkilega vera staddur þarna úti á rúmsjó með söguhetjunni og tígranum Richard Parker. Atriðin sem gerast eftir að skipið sekkur eru alveg mögnuð og sagan í heild heillandi ævintýri sem gleymist seint. Eina sem mér fannst slæmt var að það skyldi ekki vera hlé. Maður er svo vanur því frá Íslandi. Dáldið erfitt að sitja kjurr í rúma tvo tíma, jafnvel þótt myndin sé stórkostleg eins og þarna.

En, jæja, þannig var nú mín fyrsta heimsókn í kínverskt kvikmyndahús. Ég átti satt að segja von á að það yrði tilkomumeira, en um leið verð ég að segja að það olli heldur engum vonbrigðum. Var bara svona ósköp fínt og notalegt miðað við reynsluna úr öðrum bíóum.

Hver veit nema ég skelli mér fljótlega aftur í bíó … þær eru margar myndirnar sem mig langar að sjá og verður spennandi að fylgjast með hverjar af þeim umtöluðustu koma í kvikmyndahúsin hér á næstunni.

Bergur Ísleifsson
http://bergurisleifsson.com