Leikstjórinn Sam Mendes sagði frá því í nýlegu viðtali við tímaritið Entertainment Now að það sé búið að ákveða hver mun syngja titillag Spectre, sem er nýjasta James Bond-myndin og er hún væntanleg í kvikmyndahús á næsta ári.
Mendes benti á framleiðanda myndarinnar, Barbara Broccoli, er hann var spurður hvenær almenningur fengi að vita hver flytjandinn væri.
,,Hvenær fáið þið að vita hver mun flytja lagið? Þið verðið að spyrja Broccoli, en ég myndi segja að það verði ekki sagt frá því fyrr en framleiðsla er komin langt á leið,“ sagði Mendes við tímaritið.
Söngkonan Adele söng tittillag síðustu Bond-myndar, Skyfall, og uppskar Óskarsverðlaun fyrir vikið.
Margar getgátur hafa verið á kreiki um hver mun flytja lagið og hafa söngvarar á borð við Lana Del Rey, Sam Smith og Alex Turner legið undir grun. Einnig hafa nokkrir spáð því að Adele muni endurtaka leikinn.
Daniel Craig mun endurtaka hlutverk sitt sem njósnari hennar hátignar. Með aukahlutverk fara Cristoph Waltz, Dave Bautista, Monica Bellucci, Léa Seydoux og Andrew Scott.