Leðurblökumaðurinn er löngu orðinn heimsþekkt ævintýrapersóna. Árið 1938 lágu frumdrögin að Leðurblökumanninum á teikniborði listamannanna, teiknarans Bobs Kane og handritshöfundarins Bills Finger.
Hugmyndin um að gera leikna bíómynd um Batman er orðin 65 ára gömul, árið 1943 komu 15 þættir um þá Batman og Robin, alls tæpar 5 klukkustundir og var þeim dreift í kvikmyndahús vítt og breitt. Síðan gerist fátt eitt í bíómálum Leðurblökumannsins uns Warner Bros vekja garpinn upp með miklu havaríi árið 1989 og hefur kempan því verið viðloðandi kvikmyndasalina síðustu 20 árin.
Nýjustu fréttir úr heimi Leðurblökumannsins eru þær að leikarinn Christan Bale hefur sagt skilið við hlutverkið og velta margir fyrir sér hver taki við af honum í næstu myndum. Bale hefur unnið hugi og hjörtu aðdáenda og horfa margir á hann sem hinn eina sanna Leðurblökumann.
Í tilefni af getgátum manna þá tókum við niður nokkra leikara sem gætu hentað í hlutverkið.
Michael Fassbender – Við vonum að Fassbender næli sér í hlutverkið. Hann hefur alla burði til þess að leika bæði hinn yfirvegaða Bruce Wayne og hinn kröftuga Leðurblökumann.
Hugh Jackman – Var boðið að leika í Dark Knight og Batman Begins, ekki er vitað hvaða hlutverk var þar á ferðinni en það er greinilegt að margir hafa augastað á honum.
Tom Cruise – Hefur þá hæfileika að geta leikið hvaða hlutverk sem er og virðist eldast vel.
Sam Worthington – Ungur og frískur leikari sem á framtíðina fyrir sér. Hann er töff, en á sama tíma mjúkur.
Ryan Gosling – Afhverju ekki?
Bradley Cooper – Hefur sannað sig sem bæði ágætis dramaleikari og gamanleikari. Leðurblökumaðurinn hefur sitt af hverju.
Guy Pearce – Við vitum ekki afhverju við settum hann á listann en af einhverjum ástæðum er hann hér.
Jon Hamm – Frábær í Mad Men og væri frábær Bruce Wayne. Aftur á móti sjáum við hann ekki fyrir okkur slást við glæpona.
Josh Holloway – Hefur sannað sig í þáttunum Lost og væri eflaust flottur Bruce Wayne.
Joel Edgerton – Gerði það gott í kvikmyndinni Warrior og sýndi þar báðar hliðar sem skipta máli fyrir hlutverkið.