Nú styttist í Óskarsverðlaunin, eina stærstu verðlaunahátíð kvikmyndageirans og þrátt fyrir að margir hverjir eru löngu hættir að taka mark á þeim vegna… tja, umdeildra ákvarðana í fyrri tíð, þá er ekki hægt að neita því að allir fylgjast með því hver tekur litla gullmanninn með sér heim. Empire Online er búið að setja upp skemmtilegan lista yfir kosti og galla þeirra sem tilnefndir eru í helstu flokkunum (besta myndin, leikari, leikkona, leikstjóri o.sfrv.) sem ég hef íslenskað eftir minni bestu getu skemmtilegustu punktana og ætla ég að byrja á bestu leikkonunni.
Glenn Close fyrir Albert Nobbs
Af hverju hún ætti að fara með kallinn heim:
- Í gegnum tíðina hefur hún verið tilnefnd sex sinnum og aldrei unnið. Sanngjarnast væri að láta hana fá styttuna.
- Kjósendur eru líklegast allir Damages aðdáendur og munu því kjósa hana af tryggð við þættina.
Af hverju hún ætti að fara tómhent heim:
- Myndinni gekk ekki vel í kvikmyndahúsum og er klárlega með lægstu gróðatöluna sem er yfirleitt ekki góðs viti.
- Áhorfstölur Damages eru góðar – en ekki ÞAÐ góðar.
Viola Davis fyrir The Help
Af hverju hún ætti að fara með kallinn heim:
- Hún hefur hlotið mikið lof fyrir hlutverk sitt í The Help og hlaut hin virtu SAG verðlaun sem hafa í gegnum tíðina verið gott merki fyrir Óskarinn – kannski vegna þess að stærsti hluti kjósenda eru meðlimir Screen Actors Guild?
- Hún er góðvinkona George Clooney og þar sem allt það sem hann snertir breytist í gull er ekki ólíklegt að eitthvað af hans töfrum nuddist yfir á Violu og skili henni sigrinum.
Af hverju hún ætti að fara tómhent heim:
- Það er umdeilt hvort þetta hafi verið aðalhlutverk. Í mesta lagi deildi hún því með Emmu Stone.
- Á undanförnu árum hefur Óskarinn farið til þeirra sem leika persónu sem raunverulega var uppi og þó að The Help líti út fyrir að vera byggð á sannri sögu er það ekki raunin.
- Hún er ekki á svokallaða A-listanum í Hollywood og venjulega hefur Óskarinn farið til þeirra sem efst eru á listanum – Eða til Hilary Swank.
Rooney Mara fyrir The Girl With The Dragon Tattoo
Af hverju hún ætti að fara með kallinn heim:
- Frammistaða hennar í myndinni er mögnuð og fyrir svona ferskt andlit er það stór plús, sérstaklega þar sem hún vippar fram hreim!
- Þetta er alvarleg mynd, byggð á alvarlegri bók sem fólk, jafnvel í Hollywood, hefur lesið.
Af hverju hún ætti að fara tómhent heim:
- Þó að hún hafi gert sig skrýtna fyrir hlutverkið og mótað líkamann algjörlega upp á nýtt fyrir það telst það ekki tiltökumál fyrir konur að grenna sig fyrir hlutverk, hún fær ekki atkvæði út á það.
- Myndin hefur verið hundsuð á verðlaunahátíðum og Mara var ekki tilnefnd til SAG verðlauna fyrir hlutverkið sem er ekki gott merki (sjá punkt um Violu Davis).
Meryl Streep fyrir Iron Lady
Af hverju hún ætti að fara með kallinn heim:
- Þrátt fyrir að hafa verið tilnefnd liggur við árlega síðan hún byrjaði (17 sinnum) hefur hún ekki fengið nýjan gullkall í safnið í næstum 30 ár, og það gæti verið kominn tími til.
- Hún leikur alvöru persónu og er á A-listanum. Hún er með akademíuna í vasanum!
Af hverju hún ætti að fara tómhent heim:
- Hún hefur nú þegar fengið tvo Óskara, er það ekki nóg?
- Það hata allir Margaret Thatcher, jafnvel meira en þeir elska Meryl Streep og það gæti skipt máli.
Michelle Williams fyrir My Week With Marilyn
Af hverju hún ætti að fara með kallinn heim:
- Þetta er þriðja tilnefningin hennar og önnur á jafnmörgum árum. Fæstir bjuggust við því af Dawson’s Creek stjörnu…
- Williams hefur fengið góða dóma fyrir hlutverkið og fengið slatta af verðlaunum gagnrýnenda nú þegar sem og tilnefningu til SAG.
Af hverju hún ætti að fara tómhent heim:
- Hún vann ekki SAG verðlaunin sem er ekki gott merki.
- Myndin gæti hugsanlega ekki verið jafn góð og frammistaða Williams er í henni (sem á líka við Iron Lady og The Help) sem er ekki Williams í hag.
- Getur einhver leikið kynbombuna Marilyn Monroe nógu vel til þess að liðið í Hollywood verði ánægt?
Og þá er bara spurningin: Hver haldið þið að taki litla gullkallinn með sér heim?