Fyrsta stiklan úr myndinni sem margir bíða óþreyjufullir eftir, nýjustu mynd Guillermo del Toro, Crimson Peak, er komin út, en í myndinni snýr del Toro aftur til upprunans, með taugatrekkjandi hrolli þar sem draugar og ráðgátur í gömlu húsi koma við sögu.
Eins og sést í stiklunni þá gerist myndin á 19. öldinni og yfir vötnum svífur drungaleg spenna.
Með helstu hlutverk fara Mia Wasikowska, sem leikur unga konu sem heillast af töfrandi biðli, sem Tom Hiddleston leikur, og fer með honum heim á ættaróðalið, þar sem hún kynnist afbrýðisamri systur, sem Jessica Chastain leikur, og ýmsum beinagrindum í skúmaskotum hússins, sem andar, blæðir …. og man.
Charlie Hunnam fer einnig með hlutverk í myndinni.
Myndin kemur í bíó 16. október nk.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: