Hrútarnir skornir – Fyrsta stikla!

Fyrsta stiklan úr nýjustu mynd Gríms Hákonarsonar, Hrútar, var frumsýnd á vef kvikmyndaritsins Variety í dag, en í stiklunni sjáum við bræðurna, bændurna og nágrannana, sem talast ekki við, Gumma og Kidda, sem leiknir eru af Sigurði Sigurjónssyni og Theodóri Júlíussyni.

sigurður

Þeir eru sauðfjárbændur, en eins og sést í stiklunni kemur upp riðuveiki og skera þarf allt sauðfé í sveitinni.

Myndin verður frumsýnd á Un Certain Regard hluta Cannes kvikmyndahátíðarinnar síðar í þessum mánuði.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan:

Hrútar fjalla um tvo sauðfjárbændur á sjötugsaldri, bræðurna Gumma og Kidda, sem búa hlið við hlið í afskekktum dal á Norðurlandi. Fjárstofn þeirra bræðra þykir einn sá besti á landinu og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína.

Þrátt fyrir að deila sama landi og lífsviðurværi þá hafa bræðurnir ekki talast við í fjóra áratugi. Þegar riðuveiki kemur upp í dalnum grípur um sig mikil örvænting á meðal bændanna þar. Yfirvöld ákveða að skera niður allt sauðfé til þess að sporna við útbreiðslu sjúkdómsins. Bræðurnir standa frammi fyrir því að missa það sem er þeim kærast og grípa til sinna ráða.

Tökur fóru fram á bæjunum Mýri og Bólstað, sem staðsettir eru hlið við hlið í Bárðardal á Norðurlandi.

Myndin verður frumsýnd í Cannes 15. maí nk. og hér á landi síðar í mánuðinum.