Hreinn sveinn kennir kynfræðslu

sexedFyrrum barnastjarnan Haley Joel Osment hefur lítið látið á sér kræla undanfarin ár, en svo virðist sem það sé búið að blása nýju lífi í leiklistarferil hans því framundan eru ótal spennandi verkefni.

Osment kom fyrst fram sem sonur Tom Hanks í hinni geysivinsælu mynd Forrest Gump, en skaust síðan á stjörnuhiminninn fyrir hlutverk sitt sem taugaveiklaði drengurinn í The Sixth Sense, en hann hlaut Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir leik sinn í þeirri mynd.

Nýjasta myndin sem hann leikur í nefnist Sex Ed og fjallar um mann sem kennir kynfræðslu. Maðurinn finnur sig ekki í starfinu vegna þess að hann hefur enga reynslu af kynlífi nema úr bókum og því er spurning hvort hann sé hæfur að kenna fagið.

Fyrir skömmu var sýnd ný stikla úr myndinni sem skartar einnig leikurum á borð við Abby Elliot og Matt Walsh.

Hér að neðan má sjá stikluna.