Hrakföll Tortímandans og listin að skopstæla

Það lítur út fyrir að ýmislegt sé enn óuppgert varðandi samantektina á einhverri vandræðalegustu framsetningu á þróun myndabálks í Hollywoodsögunni fyrr eða síðar. Til eru allmörg dæmi um klúðurslegar framkvæmdir á svonefndum franchise-seríum, en Terminator er í þeim merkilega sérflokki að gerðar voru þrjár ólíkar tilraunir til þess að mastera “þriðju” myndina. Með öðrum orðum fór allt í bál og brand með brandið þegar James Cameron hafði yfirgefið skipið eftir T2.

Þá, af lítt skiljanlegum ástæðum, leiðir þetta umræðuna í þá vanmetnu list að gera afbragðs skopstælingu. Fagmenn eins og Mel Brooks, David Zucker og fleiri lögðu stórskemmtilega teina fyrir möguleika “spoof” geirans mikla, en í seinni tíð þurfti ekki nema tvo aðra dúdda til að fella hann endanlega í augum massans.

Hefst þá tengipunkturinn við mynstur Tortímandans og hvernig ástand hans svipar til sambærilegra afbrigða og tvíeykið Friedberg/Seltzer er kennt við. Kenna má þeim um að hafa átt þátt í að myrða góðan gríngeira, bæði áður og eftir að þeir brennimerktu hann með eigin lítrum af þvagi.

Í þessum einkennilega aukaþætti Poppkúltúrs setjast Bíótalsmenn Tómas Valgeirsson og Sindri Gretarsson við míkrafónana og kanna þvagsýnin umræddu. Einnig skoða þeir breytingar á tíðarandanum, furða sig á vörumerkjamorðum og rifja upp meinfyndnar vitleysumyndir. Innifalið þar er að sjálfsögðu áminning um ágæti steypumyndanna BASEketball og Jane Austen’s Mafia.

Þáttinn má nálgast gegnum Spotify hlekk hér að neðan, en sarpur Poppkúltúrs er að finna hér í heild sinni.