HBO hefur formlega endurnýjað sjónvarpsþættina House of the Dragon fyrir fjórðu þáttaröð, áður en sú þriðja hefur verið sýnd. Þriðja þáttaröðin er væntanleg sumarið 2026, en fjórða þáttaröðin áætluð 2028. Með þessu staðfestir HBO að sagan um Targaryen-ættina og blóðuga valdabaráttu hennar sé langt frá því að vera lokið.
Nýjar kynningarmyndir úr þriðju þáttaröð gefa til kynna að borgarastyrjöldin, sem þekkt er sem Dance of the Dragons, sé nú að færast inn í sitt harðasta og blóðugasta skeið. Það sem byrjaði sem flókið valdastríð innan konungsfjölskyldunnar er nú orðið að allsherjar stríði um yfirráð í Westeros.
Á einni ljósmyndanna sést Rhaenyra Targaryen, „Svarta drottningin“, glíma við þunga byrði valdsins. Hún er klædd fyrir stríð fremur en hirðlíf og virðist enn staðsett á Dragonstone, þar sem hún undirbýr næstu skref sín í átökunum sem gætu kostað hana – og ríkið – meira en bara kórónuna.

Í annarri kynningarmynd sjáum við Daemon Targaryen í Riverlands umkringdan her undir merkjum House Tully. Við hlið hans stendur ungi lávarðurinn Oscar Tully, sem líklega mun öðlast harða og persónulega innsýn í grimmd stríðsins á komandi tímabili. Þetta bendir til þess að stórir bardagar í Riverlands verði í forgrunni í þriðju þáttaröð, þar á meðal þekkt átök úr sögunni eins og Battle of the Red Fork, Fishfeed og Butcher’s Ball.

Þó að sjónvarpsserían fylgi ekki bókum George R.R. Martin í einu og öllu, bendir allt til þess að þriðja þáttaröð verði gróf, blóðug og magnað sjónarspil, þar sem bardagar, pólitík og persónuleg dramatík blandast á þann hátt sem gert hefur seríuna að einum stærsta sjónvarpsviðburði síðari ára.
Sýningarstjórinn Ryan Condal hefur áður nefnt að hann sjái fyrir sér að serían endi eftir fjórar þáttaraðir, en það hefur ekki verið staðfest opinberlega. Hann vinnur enn að handriti að fjórðu þáttaröðinni og mun taka lokaákvörðun um endapunkt sögunnar þegar frásögnin liggur skýr fyrir.
Á sama tíma tilkynnti HBO einnig að önnur Game of Thrones-forsería, A Knight of the Seven Kingdoms, hafi fengið snemmbúna endurnýjun fyrir aðra þáttaröð – áður en fyrsta sería hennar hefur verið frumsýnd. Westeros er því greinilega langt frá því að segja sitt síðasta.

Að lokum má einnig nefna að höfundur verksins, George R.R. Martin, var á Íslandi nýverið, þar sem hann var heiðursgestur á bókmennta- og kvikmyndahátíðinni Iceland Noir. Þar ræddi hann meðal annars um sagnalist, sköpun ævintýraheima og tengsl bókmennta, sjónvarps og tölvuleikja, meðal annars í tengslum við Elden Ring og Game of Thrones-heiminn.
Heimildir: Deadline, WinterIsComing.net, Esports.is, HBO




