Paramount Pictures sendi frá sér nýtt plakat fyrir nýju Top Gun myndina, Top Gun: Maverick í dag. Á plakatinu sjáum við aðalhetjuna, Pete „Maverick“ Mitchell, sem leikinn er af Tom Cruise, horfa til himins, á sama tíma og hann hallar sér upp að flugvél.
Paramount segir að ný stikla sé einnig á leiðinni á morgun mánudag.
Top Gun: Maverick gerist 34 árum eftir atburði fyrri myndarinnar, og segir frá því þegar hinn goðsagnakenndi flugmaður Peter „Maverick“ Mitchell, er orðinn yfir þjálfari Top Gun, og hefur það verkefni m.a. að þjálfa Bradley, son Goose, sem ætlar sér að verða flugmaður, rétt eins og faðir sinn.
Cruise leikur aftur sama hlutverk og hann gerði í Top Gun frá árinu 1986, en einnig eru leikarar þau Miles Teller sem sonur Goose, Bradley, ásamt Jennifer Connelly, Jon Hamm, Glen Powell, Lewis Pullman og Ed Harris. Val Kilmer mun einnig koma við sögu á ný sem Tom „Iceman“ Kazansky. Leikstjóri er Joseph Kosinski.
Tökur myndarinnar hófust árið 2018, og héldu áfram fram á þetta ár, eða allt fram í júní sl. Fyrst átti að frumsýna myndina í júlí 2019, en Paramount seinkaði myndinni um eitt ár.
Fyrsta stikla og plakat voru frumsýnd á Comic-Con afþreyingarhátíðinni í San Diego fyrr á árinu.
Top Gun: Maverick kemur í bíó á Íslandi 24. júní 2020.
Kíktu á plakatið hér fyrir neðan og fyrstu stikluna þar fyrir neðan: