Hitchcock stingur Scarlett í sturtu

Ný kitla er komin fyrir myndina Hitchcock eftir leikstjórann Sacha Gervasi, en myndin fjallar um gerð hinnar sígildu hrollvekju Psycho eftir Alfred Hitchcock.

Frægasta atriði myndarinnar er sturtusenan þar sem Janet Leigh er drepin, en framleiðendur myndarinnar hafa búið til þennan 16 sekúndna bút hér að neðan til að kynna myndina. Í bútnum er leikstjórinn, leikinn af Sir Anthony Hopkins, að fylgjast með tökum á sturtusenunni, en er greinilega ekki nógu hress með það hvernig leikarinn beitir hnífnum. Hann grípur hnífinn því sjálfur og gengur að sturtunni þar sem Scarlett Johansson er að baða sig.

 

Hluti af þessari kynningu á myndinni er vefsíðan ShareYourScream.com en þar getur maður dundað sér við að bæta mynd af sjálfum sér inná plakötin fyrir Hitchcock.

Myndin er byggð á bók Stephen Rebello, Alfred Hitchcock and the Making of Psycho. Aðalleikarar eru Anthony Hopkins, Helen Mirren, Scarlett Johansson, James D’Arcy, Michael Stuhlbarg, Jessica Biel, Ralph Macchio og Toni Collette. Myndin verður frumsýnd þann 23. nóvember.