Chris Hemsworth hefur verið ráðinn í hlutverk bandaríska fjölbragðaglímukappans og ofurstjörnunnar Hulk Hogan í nýrri ævisögulegri kvikmynd, þar sem dúóið Todd Phillips leikstjóri og Scott Silver handritshöfundur, sem unnu saman að DC Comics kvikmyndinni The Joker, leiða saman hesta sína að nýju.
Framleiðandi kvikmyndarinnar er streymisrisinn Netflix.
Hulk Hogan er eitt stærsta nafn allra tíma í fjölbragðaglímunni bandarísku, og var fastagestur í bandarísku sjónvarpi á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar.
Hogan var skírður Terry Gene Bollea, og hóf feril sinn seint á áttunda áratug síðustu aldar í Flórída, og barðist þá oft og iðulega við hinn tröllvaxna Andre the Giant í WWF fjölbragðaglímukeppninni. Þegar Vince McMahon keypti keppnina og breiddi hana út um landið, varð Hogan einskonar andlit WWF, og þjóðþekktur sem slíkur, auk þess sem hann var orðinn teiknimyndapersóna, birtist í tölvuleikjum og margt fleira.
Halla fór undan fæti þegar komið var fram á þessa öld, en persónuleg mál fóru að yfirskyggja frægð Hogan á glímusviðinu.
Meðal annars lenti hann í kynlífsmyndbandshneyksli ásamt eiginkonu vinar síns, og í hönd fóru löng réttaröld.
Á meðan Hogan keppti í glímunni, og eftir að hann hætti, lék hann í kvikmyndum, en ferill hans hófst þegar hann lék einn af andstæðingum Rocky í Rocky 3 árið 1982
Í nýju ævisögunni verður líf hans ekki tekið fyrir í heild sinni, samkvæmt upplýsingum frá The Hollywood Reporter, heldur verður lögð áhersla á það hvernig frægðarsól hans hófst á loft, og er myndinni lýst sem upprunasögu „Hulksins“ og „Hulkæðisins“.
Næsta mynd Hemsworth verður Avengers: Endgame, sem frumsýnd verður hér á landi 26. apríl nk. og Men in Black: International, sem frumsýnd verður 14. júní nk.